Stormur í dag og á morgun

Suðvestan stormurinn sem geisað hefur á landinu er nú í rénum. Lægðin sem honum olli fer norður á bóginn og fjarlægist landið, en þegar vindhraði hefur náð þetta hátt er löng leiðin niður á við og nær ekki að lægja almennilega í dag og seinnipartinn fer að bæta í vind að nýju þegar næsta lægð nálgast landið. Í kvöld má því búast við sunnan hvassviðri eða stormi með rigningu og verður hún í talsverðu magni á vestanverðu landinu. Á morgun er áfram útlit fyrir hvassan vind, en hann verður vestlægari og í stað rigningar koma skúrir eða él með svalara veðri.

Í spá Veðurstofu Íslands fyrir Vestfirði í dag er gert ráð fyrir suðvestan 15-20 m/s og éljum framan af, en 10-15 og úrkomuminna um hádegi. Hiti nálægt frostmarki. Gengur síðan í sunnan 15-23 m/s með talsverðri rigningu í kvöld, en suðvestan 18-23 og éljum á morgun með hita kringum frostmark, það lægir er líður á daginn.

Mun skaplegra veður er í kortunum fyrir sunnudaginn, þó aðeins blási og rigni sunnan- og vestanlands. Það er síðan útlit fyrir rólegt veður á landinu eftir helgi.

annska@bb.is

DEILA