Skipulagsstofnun hefur lokið álitsgerð vegna Vestfjarðavegar (60) milli Bjarkalundar og Skálaness í Reykhólahreppi samkvæmt lögum nr. 106/2000. Að mati Skipulagsstofnunar er leið D2 sá kostur sem uppfyllir best markmið laga nr. 106/2000 um að draga eins og kostur er úr neikvæðum áhrifum framkvæmda.

Leið D2 fylgir núverandi vegi frá Bjarkalundi að Þorskafirði og þverar Þorskafjörð rétt utan við Mjólkárlínu. Hún liggur í jarðgöngum undir Hjallaháls og um botn Djúpafjarðar. Þaðan fer hún í nýju vegstæði yfir Ódrjúgsháls, þverar svo Gufufjörð skammt utan Hofstaða að Skálanesi. Leiðin er 22,0 km löng með 4,5 km jarðgöngum og styttir Vestfjarðavegum 19,6 km. Byggja þarf 260 m langa brú yfir Þorskafjörð, 28 m brú yfir Djúpadalsá í botni Djúpafjarðar og 70 m brú yfir Gufufjörð, samtals 358 m langar brýr. Mögulegt er að leggja af langa kafla á núverandi vegi. Heildarefnisþörf vegna leiðar D2 er 1.204 þúsund rúmmetrar.

Á því landsvæði sem framkvæmdin er fyrirhuguð gilda margvísleg verndarákvæði sem taka að einhverju marki til allra þeirra fimm veglína sem matsskýrsla Vegagerðarinnar fjallar um. Votlendi, leirur og sjávarfitjar ásamt sérstæðum eða vistfræðilega mikilvægum birkiskógum njóta verndar samkvæmt 61. gr. náttúruverndarlaga. Þá er hluti áformaðs framkvæmdasvæðis innan svæðis á náttúruminjaskrá. Einnig er nokkur fjöldi fornleifa sem njóta verndar samkvæmt lögum um menningarminjar á eða nærri framkvæmdasvæði allra veglína. Jafnframt er arnarvarp og æðarvarp nærri framkvæmdasvæðinu sem nýtur verndar samkvæmt lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Þá eru búsvæði fleiri verndaðra fugla- og gróðurtegunda á áhrifasvæði framkvæmdarinnar. Einnig er sérstök áhersla á verndun landslags í lögum um náttúruvernd og í lögum um vernd Breiðafjarðar.

Hafandi í huga markmið laga um mat á umhverfisáhrifum, sem er að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmda, og að teknu tilliti til þess að allar þær fimm veglínur sem lagðar eru fram í matsskýrslu Vegagerðarinnar uppfylla umferðaröryggiskröfur og markmið um styttingu, telur Skipulagsstofnun að velja beri þá leið sem hefur í för með sér minnst neikvæð umhverfisáhrif. Gildir það sérstaklega gagnvart raski á þeim vistkerfum og jarðminjum sem njóta verndar samkvæmt 61. gr. náttúruverndarlaga, en samkvæmt náttúruverndarlögum ber að forðast að raska þeim nema brýna nauðsyn beri til. Við mat á því hvenær það getur átt við skal horfa til verndarmarkmiða náttúruverndarlaga, mikilvægis minja og sérstöðu þeirra í íslensku og alþjóðlegu samhengi og varúðarreglu umhverfisréttar.

Allar framlagðar veglínur hafa neikvæð áhrif á náttúruminjar sem njóta verndar samkvæmt lögum. Jafnframt liggur fyrir að nauðsyn er talin á að bæta samgöngur um svæðið og að endurbygging núverandi vegar er ekki talinn vera raunhæfur valkostur.

Hér má nálgast álit Skipulagsstofnunar.

bryndis@bb.is

DEILA