Sjávareldi í Vísindaporti vikunnar

Peter Krost (t.h.) í vettvangsferð Háskólasetursins í Álftafirði. Með honum er Eiríkur Ragnarsson starfsmaður HG.

Sjávareldi verður til umfjöllunar í Vísindaporti vikunnar en þá mun Peter Krost, doktor í sjárvistfræði og gestakennari við Háskólasetur Vestfjarða, flytja fyrirlestur um hugtakið sjálfbærni í samhengi við sjávareldi í Eystrasalti.

Í fyrirlestrinum mun Peter m.a. fjalla um mismunandi sýn og kröfur í sjávareldi milli svæða, mikilvægi atvinnulífsins, ofauðgun vegna eldis, afleiddar afurðir sjávareldis, s.s. þang og kræklingar, og rannsóknir og þróun innan sjávareldis, t.d. á smáþörungum. Einnig verður komið inn á vöruþróun og annan virðisauka, t.a.m. snyrtivörur.

Peter Krost útskrifaðist árið 1986 með meistaragráðu í líffræði frá Háskólanum í Kiel og 1990 lauk hann doktorsgráðu í sjávarvistfræði frá the Institute for Marine Science (Geomar). Í ritgerð sinni skoðaði hann áhrif botnveiða á efnasamsetningu botnsins og botnlífverur í Eystrarsalti. Árið 1995 stofnaði Peter ásamt tveimur öðrum, fyrirtækið CRM (Coastal Research and Management) sem leggur áherslu á sjálfbæra strandsvæðaþróun, með áherslu á umhverfismat, sjálfbært fiskeldi og úrtöku virkra efna úr sjó. CRM stofnaði þörungaræktun 1998 og hefur rekið kræklingaeldi frá 2010. Nú stýrir Peter námshópi um umhverfismat ásamt því að stýra fiskeldisdeild fyrirtækisins. Peter hefur kennt námskeið um nýsköpun í fiskeldi við Háskólasetur Vestfjarða frá árinu 2012.

Vísindaport er að venju opið fyrir almenning og stendur frá 12.10-13.00 á hverjum föstudegi.  Að þessu sinni mun það fara fram á ensku.

smari@bb.is

DEILA