Samþykkir ekki eigin tillögu

Daníel Jakobsson.

Daníel Jakobsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, studdi ekki eigin breytingartillögu við samning Ísafjarðarbæjar og Hestamannafélagsins Hendingar. Samningur við Hendingu var samþykktur af meirihluta Í-listans á fundi bæjarstjórnar fyrir helgi. Breytingartillaga Daníels var studd af Kristínu Hálfdánsdóttur (D), Jónasi Þór Birgissyni (D) og Marzellíusi Sveinbjörnssyni (B).

Breytingartillaga Daníels hljóðaði upp á að ganga til samninga við hestamenn um byggingu reiðskemmu og leggja til verksins 30 milljónir kr. auk jarðefnis undir bygginguna. Til viðbótar kæmi 20 milljóna kr. framlag Vegagerðarinnar vegna bóta fyrir skerðingu á aðstöðu félagsins í Hnífsdal. Að þessu leyti er tillagan nokkuð samhljóma samningi Í-listans við Hendingu. Það sem greinir tillöguna frá er að Daníel lagði til að skipa byggingarnefnd sem meðal annars gerði þarfagreiningu og skilalýsingu fyrir bygginguna og nákvæma kostnaðaráætlun.

Nefndin myndi einnig koma sér saman um verkframgang og áfangskiptingu reiðskemmunnar, sem er algjör forsenda svona framkvæmda, að mati Daníels samkvæmt breytingartillögunni. Þá átti nefndin að ákveða hvenær og að loknum hvaða verkþáttum greiðslu bæjarins til Hendingar væru inntar ef hendi.

smari@bb.is

DEILA