Samgöngur eru lífæð ferðaþjónustunnar

Frá Dynjandisheiði.

Samtök ferðaþjónustunnar lýsa yfir miklum vonbrigðum yfir boðuðum niðurskurð í samgönguáætlun. Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri samtakanna, segir með ólíkindum að nauðsynlegum framkvæmdum skuli enn og aftur vera ýtt út af borðinu. Hún bendir á að ríkið hvetji ferðamenn til að ferðast um landið allt árið um kring, og þá sé nauðsynlegt að gera þeim það kleift því samgöngur séu lífæð ferðaþjónustunnar.

„Við erum að tala um að ná að hvetja ferðamenn til að fara víðar, ferðast um landið allan ársins hring – og þar er ríkið og stendur með okkur í þar –  en það er ekki hægt á sama tíma þá að draga úr framkvæmdum þannig að þeim sé ekki gert kleift að sækja þá staði sem þeir vilja sækja,“ sagði Helga í samtali við Morgunútvarpið á Rás 2.

Ákvörðun Jóns Gunnarssonar samgönguráðherra um niðurskurð á samgönguáætlun í ljósi minna fjármagns til vegamála á fjárlögum hefur verið mótmælt landið um kring af sveitarstjórnum, landshlutasamtökum, hagsmunasamtökum og venjulegum borgurum þessa lands.

smari@bb.is

DEILA