Hjúkrunarfræðingar við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði hafa sent Kristínu B. Albertsdóttur forstjóra HVEST bréf þar sem kallað er eftir því að forstjóri taki á samskiptavanda innan stofnunarinnar. Undir bréfið rita yfir tuttugu manns og staðfestir Kristín í samtali við blaðamann Bæjarins besta að bréfið hafi borist henni, án þess að vilja greina nákvæmlega frá innihaldi þess en segir að bréfið sé ákall um að forstjóri taki á þeim samskiptavanda sem búinn er að fá að viðgangast innan stofnunarinnar alltof lengi.“
Kristín segist hafa átt marga fundi og viðtöl með starfsmönnum vegna vandans frá því er hún hóf störf síðla síðasta árs: „Mælirinn er fullur hjá mörgum og þetta er gamall vandi sem taka þarf á“ segir Kristín og bætir við að það sé ekki einfalt að takast á við svo flókin og erfið mál á stórum vinnustað í litlu samfélagi. Fyrstu skrefin séu fólgin í að lesa í alla þræði og greina vandann og segist hún auðvitað hlusta á starfsmenn sem eru langþreyttir orðnir á ástandinu.
Enginn mannauðsstjóri starfar við stofnunina, en fyrir nokkrum árum stóð til að ráða slíkan og var umsóknarferli langt á veg komið þegar hætt var við ráðningu. Kristín segir það vera nauðslegt skref hjá stofnuninni að ráða mannauðsstjóra og vonast til að það megi verða í náinni framtíð þrátt fyrir erfiðan rekstur, en stofnunin hefur glímt við viðvarandi hallarekstur undanfarin ár.