Ómskoðað í Árneshreppi

Guðbrandur Þorkelsson við fósturtalningar. Mynd: Litlihjalli.it.is

Í gær var verið að ómskoða fé hjá bændum á fjórum bæjum í Árneshreppi: Melum, Steinstúni, Árnesi og í Litlu-Ávík. Í ómskoðuninni eru taldir fósturvísar í ám til að vita hversu mörg lömb eru í hverri eða hvort þær kunni að vera geldar. Þessi vinna auðveldar bændum vinnu við sauðburðinn í vor. Það var Guðbrandur  Þorkelsson bóndi  að Skörðum í Dalasýslu sá um talninguna og vinnur hann mikið við þetta í sinni heimasveit og víðar. Frá þessu er greint á vef Litlahjalla og þar segir tæknin auðveldi þeim bændum sem nýti sér hana verkin. Þá séu augljósustu nýtingamöguleikar hennar skipulagning fóðrunar á síðari hluta meðgöngutíma ánna auk þess sem að vitneskjan geti skapað mikla möguleika til að skipuleggja alla vinnu á sauðburði. Þetta er sjöunda árið í röð sem bændur í Árneshreppi láta ómskoða til að telja fósturvísa.

annska@bb.is

DEILA