Ofhleðsla skipa verði refsiverð

Jón Hákon BA.

Í skýrslu Rann­sókn­ar­nefndar sam­göngu­slysa á því þegar Jóni Hákoni BA hvolfdi gerir nefndin þá tillögu til inn­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins að það verði af­drátt­ar­laust gert refsi­vert að of­hlaða fiski­skip og eft­ir­lit með því tryggt. Einnig að sigl­inga­lög­um verði breytt þannig að eig­end­um og vá­trygg­inga­fé­lög­um fiski­skipa verði gert skylt að taka upp flök skipa sem sökkva nema sýnt sé fram á að slíkt sé óger­legt.

Drag­nót­ar­bátn­um Jóni Há­koni BA 60 hvolfdi að morgni 7. júlí 2014 þar sem hann var að veiðum út af Aðalvík. Fjór­ir menn voru um borð og drukknaði einn þeirra, en hinum var bjargað um borð í nærstadd­an bát, Mar­dísi ÍS. Rannsóknarnefndin telur or­sök slyss­ins vera þá að skipið var of­hlaðið og með viðvar­andi stjórn­borðshalla. Þetta leiddi til þess að í velt­ingi átti sjór greiða leið inn á þilfar skips­ins bæði yfir lunn­ingu og um len­sport. Vegna óþétt­leika á lest­ar­lúgukarmi bætt­ist stöðugt sjór í lest­ina. Varð þetta til þess að skipið missti stöðug­leika og því hvolfdi þegar öldutopp­ur rann óhindrað yfir lunn­ingu þess.

smari@bb.is

DEILA