Neita sér um heilbrigðisþjónustu sökum kostnaðar

Konur eru líklegri en karlar til að neita sér um heilbrigðisþjónustu sökum kostnaðar er fram kemur í frétt á vef Hagstofu Íslands um niðurstöður evrópskrar heilsufarsrannsóknar sem sýna meðal annars að um 60% fólks telji sig þurfa á læknisþjónustu að halda, tannlæknaþjónustu eða lyfseðilskyldum lyfjum. Rúm 19% þeirra sem þurftu tannlæknaþjónustu neituðu sér hins vegar um hana sökum kostnaðar, 9,5% um lyfseðilskyld lyf og um 8% um læknisþjónustu. Tæp 22% töldu sig þurfa geðheilbrigðisþjónustu en rúm 33% þeirra töldu sig ekki hafa ráð á henni.

Ekkert samband er á milli tekna og þarfarinnar fyrir tiltekna heilbrigðisþjónustu að geðheilbrigðisþjónustu undaskilinni. Hlutfall þeirra sem töldu sig þurfa geðheilbrigðisþjónustu lækkaði eftir því sem tekjurnar voru hærri. Skýrt samband er hins vegar á milli tekna og þess að neita sér um tiltekna þjónustu sökum kostnaðar. Því lægri sem tekjurnar voru, því fleiri neituðu sér um þjónustu sem þeir töldu sig þurfa. Í neðsta tekjubilinu neituðu rúm 17% sér um læknisþjónustu, tæp 33% um tannlæknaþjónustu, tæp 17% um lyfseðilskyld lyf og um 45% um geðheilbrigðisþjónustu. Í efsta tekjubilinu neituðu tæp 3% sér um læknisþjónustu, tæp 8% um tannlæknaþjónustu, 3% um lyfseðilskyld lyf og um 21% um geðheilbrigðisþjónustu.

Evrópska heilsufarsrannsóknin er samræmd rannsókn á heilsufari og heilsutengdri hegðun sem hagstofur á Evrópska efnahagssvæðinu framkvæma. Rannsóknin var gerð á Íslandi haustið 2015. Í úrtaki voru 5.700 einstaklingar sem valdir voru af handahófi úr þjóðskrá. Af þeim svaraði 70,2% þátttakenda eða 4.001 einstaklingur.

annska@bb.is

DEILA