Mottudagurinn í dag

Í dag er Mottudagurinn og hvetur Krabbameinsfélagið alla landsmenn, konur og karla, til að halda upp á hann með því að leyfa karlmennskunni að skína sem aldrei fyrr. Mottumars er árlegt átaksverkefni Krabbameinsfélagsins tileinkað baráttunni gegn krabbameinum í körlum. Markmið átaksins í ár er að auka þekkingu á skaðsemi tóbaksnotkunar og hvetja þá karla sem nota tóbak að hætta. Á Mottudaginn fær karlmennskan að njóta sín. Í fréttatilkynningu Krabbameinsfélagsins um Mottudaginn segir að það sé kjörið að leyfa ímyndunaraflinu að ráða för og skarta öllu mögulegu tengdu karlmanninum, fatnaði, höfuðfötum, gerviskeggi og þar fram eftir götunum – og fá sem flesta í lið með sér. Krabbameinsfélagið hvetur hópa til að gera eitthvað skemmtilegt saman, smella af því myndum og senda á mottumars@krabb.is eða setja á Facebooksíðu átaksins.

Hjá Krabbameinsfélaginu er hægt að fá ýmislegt sem fólk getur notað til að skreyta sig á Mottudaginn. Mottuvarninginn má kaupa í netverslun Krabbameinsfélagsins, en einnig má koma við hjá þeim í höfuðstöðvum þeirra í borginni í Skógarhlíð 8 frá 8:30-16:00. Til að styrkja átakið má senda sms-ið MOTTA í símanúmerið 1900 og er þá Krabbameinsfélagið styrkt um 1900 krónur.

Þriðjudaginn 14. mars næstkomandi stendur Embætti landlæknis ásamt Læknafélagi Íslands, Háskóla Íslands og Krabbameinsfélaginu fyrir málþingi um tóbaksvarnir sem ber yfirskriftina „Hættu nú alveg!“

DEILA