Mótmælir stefnu stjórnvalda í samgöngumálum

Hjallaháls í Gufudalssveit. Ekkert verður af framkvæmdum í Gufudalssveit í ár þó svo að framkvæmdaleyfi fáist.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar mótmælir þeirri stefnu stjórnvalda í samgöngumálum, en fyrir helgi kom í ljós hvaða verkefni samgönguáætlunar fara undir niðurskurðarhnífinn. Meðal annars verður engu fé varið í vegagerð í Gufuadalssveit og á Dynjandisheiði. Í ályktun bæjarráðs erþví mótmælt að stjórnvöld fjármagni ekki samgöngukerfi landsins með þeim hætti sem nauðsynlegt er og líta þar með framhjá þeirri miklu þörf sem er í uppbyggingu innviða. „Bætt samgöngukerfi er ein af forsendum þeirrar uppbyggingar sem þarf að eiga sér stað á Íslandi vegna vaxtar atvinnulífsins á sviði ferðamála og fiskeldis,“ segir í ályktun bæjarráðs.

Hávær mótmæli hafa verið um land allt eftir að Jón Gunnarsson samgönguráðherra skar niður fjölda verkefna á samgönguáætlun sem var samþykkt rétt fyrir kosningar í haust. Ástæða niðurskurðarins er að fjárlög ársins ná ekki að fjármagna þann fjölda þjóðþrifaverka sem þingmenn settu inn í samgönguáætlun kortéri fyrir kosningar.

smari@bb.is

DEILA