Meirihluti andvígur vegtollum

58 prósent Íslendinga eru á móti vegtollum sem notaðir yrðu til uppbyggingar á vegakerfinu en 42 prósent eru með slíkum tollum. Íbúar á Suðurlandi og Reykjanesi eru einna helst á móti slíkum tollum eða 73 prósent en helmingur íbúa höfuðborgarinnar. Kjósendur Pírata eru helstu andstæðingar vegtolla en minnst er andstaðan hjá stuðningsmönnum Bjartrar framtíðar.

Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun Maskínu sem birt var í dag. Samkvæmt henni eru 73 prósent þeirra sem lokið hafa grunnskólaprófi á móti vegtollum en 54 til 57 prósent þeirra sem hafa hærri menntun.

Svarendur voru 888 manns sem koma úr þjóðargátt Maskínu en könnunin fór fram dagana 24. febrúar til 6. mars.

Í könnuninni kemur fram að stuðningsmenn Pírata eru mest á móti vegtollum eða 71 prósent. 65 prósent stuðningsmanna Samfylkingarinnar og 63 prósent kjósenda Framsóknarflokksins eru andvígir vegtollum. Rúmlega helmingur stuðningsmanna Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins eru sömu skoðunar. Minnsta andstaðan við vegtolla mælist hjá Bjartri framtíð eða 32,3 prósent.

DEILA