Marianna og Kristján sigruðu á bogfimimóti skotíþróttafélagsins

Bogfimi hentar fólki á öllum aldri

Á laugardag hélt Skotíþróttafélag Ísafjarðarbæjar bogfimimót þar sem keppt í tveimur flokkum; unglingaflokki þar sem spreyttu sig keppendur undir 21.árs  aldri og opnum flokki. Í unglingaflokki sigraði Marianna Glodkowska, í öðru sæti var Lilja Dís Kristjánsdóttir og Guðmundur Brynjar Björgvinsson í því þriðja. Opna flokkinn sigraði Kristján G. Sigurðsson, þá var Björgvin Brynjarsson í öðru sæti og Leifur Bremnes í því þriðja.

Sigurvegararnir í unglingaflokki

Bogfimiiðkun er tiltölulega nýlega hafin á Ísafirði. Bogfimiæfingar hófust eftir að skotíþróttafélagið útbjó aðstöðu til slíkra æfinga undir stúkunni á fótboltavellinum á Torfnesi. Boðið er upp á opna tíma tvisvar í viku, á þriðjudögum og fimmtudögum á milli 17:15 og 19, sem hafa verið vel sóttir. Bogfimi er íþrótt sem hentar flestum og höfðar hún til breiðs aldurshóps. Skotíþróttafélagið er með nokkra sveigboga og skotmörk fyrir þá sem koma og því ekki nauðsynlegt að koma sér upp slíkum búnaði áður.

Sigurvegarar í opnum flokki

Hægt er að finna bogfimi á Ísafirði á facebook á slóðinni www.facebook.com/isboginn

annska@bb.is

DEILA