Körfuboltabúðir Vestra fara fram dagana 30. maí til 4. júní en búðirnar eru nú haldnar níunda árið í röð. Opnað var fyrir skráningar í síðustu viku en rúm er fyrir tæplega 150 iðkendur. Allt stefnir í að búðirnar fyllist á örskömmum tíma því skráningar streyma inn. Að sögn Birnu Lárusdóttur hafa tíu þrautreyndir aðalþjálfarar hafa verið ráðnir til leiks auk þess sem álíka margir aðstoðarþjálfarar munu koma að búðunum.

Yfirþjálfari í ár er Ingi Þór Steinþórsson, yfirþjálfari Snæfells en hann á að baki fjölda Íslandsmeistaratitla með liðum sínum. Aðrir þjálfarar eru: Yngvi Páll Gunnlaugsson, yfirþjálfari Vestra, Borche Ilievski frá Makedóníu, yfirþjálfari ÍR og einn af upphafsmönnum Körfuboltabúðanna á Ísafirði, Lárus Jónsson, yfirþjálfari Breiðabliks, Nebojsa Knezevic frá Serbíu, þjálfari og leikmaður Vestra, Natasa Angelic frá Serbíu, þjálfari, umboðsmaður og fyrrum landsliðskona Serbíu, Keegan Bell frá Bandaríkjunum, þjálfari hjá Alabama Basketball Academy, Fran Garcia frá Spáni, þjálfari Bembibre í efstu deild kvenna á Spáni, Stephanie Douglas frá Bandaríkjunum, þjálfari, fyrrverandi NCAA leikmaður og meðlimur í Harlem Globetrotters og loks Michael Mader frá Bandaríkjunum, þjálfari við Franklin D. Roosevelt High School í New York.

Körfuboltabúðir Vestra eru ætlaðar iðkendum á aldrinum 10-16 ára og hafa börn af öllu landinu sótt búðirnar heim í gegnum tíðina.

bryndis@bb.is

DEILA