„Kaldar kveðjur til okkar“

Friðbjörg Matthíasdóttir.

Það ríkir reiði í Vesturbyggð með þá ákvörðun samgönguráðherra að skera niður allt fjármagns sem átti að fara í vegagerð í Gufudalssveit í ár, alls 1.200 milljónir kr. Greint var frá ákvörðun Jóns Gunnarssonar samgönguráðherra í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær. „Þetta eru kaldar kveður til okkar, rétt fyrir niðurstöðu Skipulagsstofnunar um umhverfismat í Teigsskógi. Mín fyrstu viðbrögð var að brjálast en svo þegar maður róast þá sér maður að þetta hljóta að vera einhver mistök, það vinnur engin svona,“ segir Friðbjörg Matthíasdóttir, starfandi bæjarstjóri í Vesturbyggð. „Fólk er gríðarlega reitt og ég er viss um að margir sváfu ekki í nótt, þetta er mikið högg,“ segir Friðbjörg.

Samgöngumannvirki hringinn í kringum landið fara undir niðurskurðarhnífinn en Friðbjörg segir að sérstaða framkvæmdanna í Gufudalssveit sé mikil. „Þetta mál er búið að velkjast í kerfinu í áratug eða meira og á þeim tíma hefur umferð um þennan handónýta veg snaraukist, sérstaklega þungatraffík með auknum umsvifum fiskeldis.“

smari@bb.is

DEILA