Hlýr og vætusamur mánuður

Febrúarmánuður var hlýr og vætusamur. Einkum var hlýtt á norðan- og austanverðu landinu og vætusamt um sunnan- og vestanvert landið. Þetta kemur fram í yfirliti Veðurstofunnar um veðrið í febrúar. Úrkoma var flesta daga á sunnan- og vestanverðu landinu og snjólétt um allt land þar til kyngdi niður snjó við Faxaflóa aðfaranótt 26. febrúar og vöknuðu íbúar höfuðborgarinnar við 51 cm jafnfallinn snjó þann dag. Er það næstmesta snjódýpt sem mælst hefur í Reykjavík til þessa en mest mældist hún hinn 18. janúar 1937, 55 cm.

Óvenjuhlýtt var á landinu þann 12. febrúar og fór hitinn víða yfir 15 stig á norðaustanverðu landinu. Heitast var á tveim fjallastöðvum; Eyjabökkum 19,1 stig og Brúðardal 17,8 stig. Mestur hiti á láglendi var á Seyðisfirði., 16,3 stig.

smari@bb.is

DEILA