Fjárfest fyrir hálfan milljarð

FleXicut vélin í vinnslusal Odda.

Líkt og greint var frá fyrr í vikunni hefur fiskvinnslan Oddi hf. á Patreksfirði tekið í notkun FleXicut skurðarvél frá Marel. FleXicut er háþróuð skurðarvél sem greinir og sker burt beingarð, þunnildi og sporð með mikilli nákvæmni og hlutar svo flökin niður í bita samkvæmt óskum viðskiptavinar.

Í frétt frá Odda hf. segir að árangur í rekstri fyrirtækisins hafi verið verið viðunandi á síðustu árum.  Árið 2016  fór afkoman þó  versnandi sem rekja má alfarið til styrkingar íslensku krónunnar og hækkunar á rekstrarkostnaði s.s. launa. Vegna síversnandi afkomu, aukinnar samkeppni á öllum sviðum sjávarútvegsrekstrar,  hafi verið ákveðið að grípa til aðgerða til að styrkja reksturinn með því að ráðast í nokkrar kostnaðarsamar framkvæmdir.

Patrekur BA 64  var keyptur til að bæta hráefnisöflun. Skipið var  síðan útbúið með nýjustu tækni á sviði veiða með línu og meðferð hráefnis. Meðal annars var sett í skipið Mustad línukerfi,  Rotex kerfi frá 3X á Ísafirði, andveltitankur til að bæta aðstöðu skipverja og annan tæknibúnað.

Á sama tíma var farið í endurnýjun fiskvinnslubúnaðar í fiskvinnslu félagsins með nýjum tæknibúnaði. Má þar nefna flatningsvél og roðdráttarvél frá Baader, hausara og flökunarvél frá Curio.  Með þessu móti reynir fyrirtækið að ná fram sem mestri hagræðingu með aukinni nýtingu, meiri vinnsluhraða og meiri gæðum.

Kostnaður við allan þennan nýja tæknibúnað upp kominn er áætlaður tæplega 500 milljónir króna, sem verður að teljast talsverð upphæð fyrir fyrirtæki af þessari stærð.

smari@bb.is

DEILA