Ferðamannavegir á Vestfjörðum verði skilgreindir

Vegurinn um Svalvoga gæti fallið undir skilgreininguna, enda vinsæll meðal ferðamanna þó hann geti á köflum verið ógnvekjandi.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG í Norðvesturkjördæmi, hefur lagt fram þingályktunartillögu um að Alþingi feli samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að skipa starfshóp til að móta stefnu og framkvæmdaáætlun um uppbyggingu akvega á Vestfjörðum sem hafa sérstöðu með tilliti til útsýnis, náttúrufegurðar og menningartengdrar ferðamennsku.

Í greinargerð segir að lagt sé til hérlendis verði haldið á þá braut sem ýmis ríki í Evrópu og Vesturheimi hafa fylgt um alllangt skeið og felst í því að gefa gildi akvega fyrir ferðamennsku sérstakan gaum, skipuleggja þá og gera þá úr garði með tilliti til ferðamanna sem vilja njóta náttúrufegurðar og dýralífs og fræðast um menningu og mannlíf á þeim slóðum sem þeir fara um.

Sem dæmi um slíka vegi má nefna Atlanterhavsveien í Noregi, Romantische Straße  í Suður Þýskalandi  og Vínleiðina – La Route des Vins d’Alsace um Alsace-hérað í Frakklandi.

Slíkir vegir gegna þannig ekki einungis því hlutverki að vegfarandinn komist greiðlega á milli áfangastaða heldur verði förin sjálf til skemmtunar, fróðleiks og yndisauka. Í þessum tilgangi er m.a. tekið tilliti til útsýnis við val á vegstæði, áningar- og útsýnisstaðir eru fleiri en ella væri og gerðar eru ráðstafanir til að kynna ferðafólki náttúru, sögu og menningu þess landsvæðis sem farið er um.

Ástæða þess að lagt er til að uppbyggingu á Vestfjörðum verði sérstaklega sinnt í þessu tilliti er að þar er margt enn ógert í vegagerð og því næg tækifæri til að koma sjónarmiðum varðandi fagrar ferðaleiðir að í hönnun og uppbyggingu vega og mannvirkjum sem þeim tengjast. Ekki skortir á náttúrufegurð í landshlutanum og má ætla að mjög víða sé hægt að finna staði og svæði þar sem unnt er að raungera væntingar um vegagerð sem í senn virði íslenska náttúru og veiti ferðamönnum tækifæri til að njóta hennar sem best. Þyki aðferðin gefa góða raun á Vestfjörðum er að sjálfsögðu rétt að beita henni einnig við vegagerð í öðrum landshlutum.

Samkvæmt þingsályktunartillögunni verða í starfshópnum fulltrúar opinberra aðila á sviði vegagerðar og skipulagsmála, fulltrúar sveitarfélaga í landshlutanum og enn fremur fulltrúi frá Skipulagsfræðingafélagi Íslands, Arkitektafélagi Íslands og Félagi leiðsögumanna og gert er ráð fyrir að niðurstöður starfshópsins liggi fyrir í árslok 2017.

smari@bb.is

DEILA