Aflaverðmæti dróst saman

Í nóvember 2016 var aflaverðmæti íslenskra skipa 10,2 milljarðar króna sem er samdráttur um 16,8% samanborið við nóvember 2015 er fram kemur í frétt á vef Hagstofunnar. Verðmæti botnfiskafla nam 7,7 milljörðum og dróst saman um 14,2% frá fyrra ári. Uppistaðan í verðmæti botnfiskaflans var þorskur en verðmæti hans nam 5,5 milljörðum sem er 2,6% minna en í nóvember 2015. Verðmæti uppsjávarafla dróst einnig saman á milli ára, nam tæpum 1,9 milljörðum sem er 21,2% minna en í nóvember 2015. Verðmæti flatfiskafla dróst saman um 25,5% og nam 522 milljónum króna í nóvember. Aflaverðmæti skelfisks dróst saman um 50,8% og nam um 88 milljónum samanborið við tæpar 179 milljónir í nóvember 2015.

Á 12 mánaða tímabili frá desember 2015 til nóvember 2016 var aflaverðmæti 134,9 milljarðar króna sem er 10,5% samdráttur miðað við sama tímabil ári fyrr. Verðmæti botnfiskafla dróst saman um 7,4 milljarða á milli tímabila. Verðmæti uppsjávartegunda dróst einnig saman á milli þessara 12 mánaða tímabila, vegur þar þyngst 7,7 milljarða samdráttur á verðmæti loðnuafla.

annska@bb.is

DEILA