Vill skoða kosti sameiningar – Bolvíkingar ekki með

Aukið samstarf eða sameining í kortunum?

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að sækja um fjárframlag frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til að kanna möguleika á sameiningu sveitarfélaga. Bæjarráð hefur ákveðið að óska eftir samstarfi við Súðavíkurhrepp þar sem kannaðir verði kostir og gallar á sameiningu og hvernig þróa megi ríkara samstarf sveitarfélaganna.

Það vekur óneitanlega athygli að Bolungarvíkurkaupstað er ekki boðið að borðinu. „Bolvíkingar vildu ekki vera með. Við hittumst á óformlegum fundi og þar kom í ljós að þeir eru til í frekara samstarf en ekki tilbúnir í að fara í þessa vinnu þar sem á að skoða grundvöll sameiningar,“ segir Arna Lára Jónsdóttir, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar.

Hún leggur áherslu á að það sé einungis verið að tala um að fara í könnun á kostum og göllum samstarfs og sameiningar. „Þessi tvö sveitarfélög eru opin fyrir frekara samstarfi og þessi vinna getur leitt tvennt af sér, aukið samstarf eða formlegar sameiningarviðræður,“ segir Arna Lára.

smari@bb.is

DEILA