Vá Vest leggst gegn áfengisfrumvarpinu

Vá Vesthópurinn lýsir yfir andstöðu við frumvarp til laga um breytingu á áfengislögum.  Hópurinn telur einsýnt að í breytingunum felist aðför að þeim góða árangri sem náðst hefur hér á landi í forvarnastarfi, sem m.a. hefur komið fram í niðurstöðum kannana meðal ungs fólks á vegum Rannsóknar & greiningar, undanfarna tvo áratugi.  Þetta kemur fram í umsögn Va Vest um frumvarp um að heimila sölu áfengis í matvöruverslunum. Í umsögninni segir að árangur Íslendinga í forvarnamálum sé ekki sjálfsagður. Hópurinn telur að þessi árangur sem margar aðrar þjóðir vildu státa af hafi orðið til með tvennum hætti. Annars vegar því forvarnastarfi sem Íslendingar hafa þróað og hins vegar heftu aðgengi ungmenna að áfengi í samræmi við gildandi áfengislög.

„Núverandi dreifingaraðili, ÁTVR, hvetur ekki til aukinnar sölu áfengis. Það er engin ástæða til að ætla annað en að einkaaðilar færu eins með sölu á áfengi og öðrum vöruflokkum sem verslunin hefur upp á að bjóða. Þar myndu lögmál markaðarins ráða. Þá er rétt að benda á að í flestum matvöruverslunum landsins, ekki síst í dreifðum byggðum, eru oft á tíðum ungmenni við afgreiðslu.,“ segir í umsögninni.

Vá Vesthópurinn er hópur fagaðila á norðanverðum Vestfjörðum sem hefur verið að störfum undanfarin 20 ár. Hlutverk og markmið hópsins er að sinna og stýra vímuefnaforvörnum á norðanverðum Vestfjörðum.

smari@bb.is

 

DEILA