Útilokað að um sama fisk sé að ræða

Frá kvíum Arctic Sea Farm í Dýrafirði.

Matvælastofnun fór í eftirlit hjá Arctic Sea Farm á laugardag í kjölfar tilkynningar fyrirtækisins um gat á sjókví með regnbogasilungi í Dýrafirði. Búið er að loka gatinu en ekki er að svo stöddu vitað hve margir fiskar hafa sloppið. Ljóst er að sá regnbogasilungur sem slapp í umhverfið síðastliðið sumar kom ekki úr þessari sjókví og eru þær slysasleppingar áfram til rannsóknar hjá stofnuninni. Í tilkynningu Arctic Sea Farm til fjölmiðla kom fram að töluverður fjöldi fiska gæti hafa sloppið og að þarna hefði mögulega fundist skýring á veiðum á regnbogasilungi á Vestfjörðum síðastliðið sumar. Matvælastofnun útilokar að málin tengist og bendir í því ljósi á að flestir þeir fiskar sem veiddust af eftirlitsmanni Fiskistofu á Vestfjörðum síðasta sumar voru um hálft kíló að þyngd. Á sama tíma og þær veiðar stóðu yfir var fiskurinn í þeirri kví sem nú um ræðir um tvö kíló, en meðalþyngd fiska í kvínni er nú fjögur kíló.

 

Í fréttatilkynningu Matvælastofnunar kemur fram að enn er óljóst hvenær og hvernig gatið myndaðist, en líklegasta skýringin er sú að botnhringur og net hafi nuddast saman með þeim afleiðingum að núningsgat myndaðist á efri hluta þrengingar við botn kvíarinnar. Netið hefur verið lagfært og verður gatið stærðarmælt þegar kvíin verður tekin á land en áætluð stærð gatsins er um 80cm x 50cm. Fyrtækið hefur látið kafara yfirfara aðrar kvíar og búnaðinum verður öllum skipt út á þessu ári.

DEILA