Skynsamlegra að slíta viðræðum við hestamenn

Samkvæmt samningnum er stefnt á byggingu reiðskemmu á þessu ári. Mynd úr safni.

Það er algjörlega ótækt að semja við Hestamannafélagið Hendingu á þeim grunni sem núverandi samkomulag Hendingar og Ísafjarðarbæjar situr á, að mati Daníels Jakobssonar, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ. „Ég hef ekki fengið að sjá kostnaðaráætlun fyrir reiðskemmuna. Mér er sagt að hún sé til en ég hef ekki fengið að sjá hana. Það hefur ekki verið lögð fram skilalýsing fyrir skemmuna,“ segir Daníel. Hann segir ofangreind atriði þó ekki endilega ráð úrslitum hjá sér – heldur sé lýsandi um vinnubrögð Í-listans í málinu. „Það á að samþykkja stór fjárútlát án þess að menn átti sig á hvað þeir ætla að fá í staðinn.“

Hann segir erfitt að meta nákvæmlega kostnað bæjarins við samninginn sem meirihlutinn vill gera við Hendingu. „Það hefur verið talað um 50 milljónir en vegna þess hversu óljóst er um kostnaðaráætlun reiðskemmunnar er erfitt að fullyrða nokkuð um það.“

Hending ekki sýnt samningsvilja

Hann er harðorður í garð forsvarsmanna Hendingar og segir að þeir hafi árum saman lagt stein í götu samkomulags. „Í minni bæjarstjóratíð náðum við samningi við Vegagerðina um 20 milljóna króna bætur, þetta var um áramótin 2013-14. Þá sendum við Hendingu tilboð upp á 27 milljóna króna eingreiðslu eða að bærinn gerði reiðvöll í Engidal sambærilegan við þann sem var í Hnífsdal. Þessu tilboði var ekki svarað en á sama tíma hefur lögfræðingur Hendingar samband við Vegagerðina og tilkynnir um málshöfðun gegn Vegagerðinni,“ segir Daníel og bætir við að vegna hótunar um málshöfðun hafi Vegagerðin haldið að sér höndum og bærinn ekki getað lokið sínum málum við Vegagerðina. „Þetta lýsir ekki miklum samningsvilja af hálfu forsvarsmanna Hendingar.“

Betra að slíta viðræðum

Daníel er enginn nýgræðingur þegar kemur að þessi tiltekna máli, enda kom það oftar en einu sinni á borð hans í fjögurra ára bæjastjóratíð hans. Aðspurður hvað hann myndi vilja gera að svo stöddu segir hann ljóst að bænum ber engin lagaleg skylda að bæta reiðvöll Hendingar í Hnífsdal „En að því sögðu, þá finnst mér sjálfsagt að koma til móts við hestamenn og mér þykir boð bæjarins um sambærilegan völl í Engidal mjög sanngjarnt en skilyrði fyrir slíkum samningi er að hestamannafélagið geri bænum kleift að semja við Vegagerðina. Það hafa þeir ekki viljað og vilja ekki enn og á meðan að svo er á ekki að halda þessum viðræðum áfram.“

Félagið varla með lífsmarki 

Hann vill einnig skoða þetta mál í víðara ljósi og bendir á að hestamennska er síður en svo fjölmennt sport á Ísafirði og menn verða að þora velta fyrir sér hvort það eigi að vera ofarlega á forgangslistanum að byggja upp aðstöðu fyrir hestaíþróttir. „Mun fjölmennari og virkari íþróttafélög hafa setið á hakanum í fjölda ára og Í-listinn ætlar að rjúka til og gera einn rausnarlegasta samning sem bærinn hefur gert við íþróttafélag sem er varla með lífsmarki. Menn verða að átta sig á að það er ekki hlutverk bæjarins að styðja við hestamannafélagið, það er hlutverk hestamannafélagsins að vera með virkt og gott félag sem við viljum styðja,“ segir Daníel.

smari@bb.is

DEILA