Setja upp Dýrin í Hálsaskógi á Þingeyri

Kardimommubærinn í uppfærslu leikdeildar Höfrungs

Það er sjaldan lognmolla í kringum leikdeild Höfrungs á Þingeyri, en síðustu ár hefur leikfélagið sett upp hverja stórsýninguna á fætur annarri, sem laðað hafa að gesti frá öllum Vestfjörðum og jafnvel víðar. Sérstök áhersla hefur verið lögð á að setja upp vandaðar og ævintýralegar fjölskylduleiksýningar. Fyrst fram senuna var hin óborganlega Lína Langsokkur og á eftir henni kom Galdrakarlinn í Oz með sínar skrítnu skrúfur og í fyrra var það Soffía frænka, ræningjarnir og allir hinir í Kardimommubænum sem glöddu leikhúsgesti. Að þessu sinni er aftur leitað til skapara Kardimommubæjarins, Torbjörns Egner og þá varð ekki minna frægt verk eftir þann meistara fyrir valinu, sjálf Dýrin í Hálsaskógi.

Sérstakur kynningarfundur um þessa stóru og miklu uppfærslu verður laugardaginn 25. febrúar klukkan 13.01 í Stefánsbúð á Þingeyri. Allir eru velkomnir hvort heldur sem fólk vill leika, smíða, sauma, mála eða bara forvitnast um verkefnið. Í framhaldinu hefjast svo æfingar sem standa yfir næstu vikurnar.

Leikstjóri er Elfar Logi Hannesson sem hefur leikstýrt öllum áðurnefndum uppfærslum leikdeildarinnar. Frumsýnt verður föstudaginn 7. apríl í Félagsheimilinu á Þingeyri, sem stundum heyrist kallað; miðstöð leiklistar á Vestfjörðum. Fleiri sýningar verða þá helgi og svo um og yfir páskahátíðna.

annska@bb.is

DEILA