Samningur í höfn – beðið eftir ríkinu

Samninganefndir sjómanna og útgerðarinnar funduðu fram eftir kvöldi í gær og sagði Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, að samningur milli deiluaðila sé í höfn fyrir utan hvað varðar skattaafslátt á fæðispeningum sem sjómenn setja á oddinn. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra hefur boðað úttekt á skattalegri meðferð fæðispeninga og er niðurstöðu að vænta í lok apríl en sjómenn segja að þeir muni ekki fresta verkfalli meðan beðið er eftir úttektinni, þeir vilji fá botn í málið núna.

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra var í viðtali í Morgunvakt Rásar 1 í morgun. Hvað varðar skattleysi fæðispeninga lagði Benedikt áherslu á að lausnin verði að vera almenn, en ekki sértæk. „Þegar menn reyna að finna lausnirnar þá verða þær að vera almennar, þær mega ekki eiga við bara um einhverja ákveðna sem lýst er heldur verða þær að gilda um alla sem eru í sambærilegri stöðu. Það er það sem þau hafa sett fram og við vildum taka okkur tíma til að skoða og í sjálfu sér þá myndi gildistíminn þess vegna vera frá 1. janúar svo enginn tapaði á biðtímanum.. En við sjáum hvað setur,“ sagði Benedikt.

Ekki hefur verið boðað til fundar í deilunni í dag.

smari@bb.is

DEILA