Rangfærslu svarað með annarri

Jóhann Bæring Pálmason

Bæjarstjórinn okkar Gísli Halldór gaf sér tíma til að svara grein minni um stóru málin í samfélaginu og bendir á nokkur atriði sem hann telur mig fara ranglega með. Fyrir það er ég þakklátur og ánægður með að ekki er allt mitt svartsýnis raus rétt.

Norðurtanginn, safnmunageymslan

Gísli bendir á að Ísafjarðarbær greiði ekki leigu fyrir tómt geymsluhúsnæði í norðurtanganum gamla. Enn staðfestir svo annarsstaðar að greiðslur hafi verið inntar af hendi til leigusala. Ísafjarðarbær á því inni hjá leigusala nokkra upphæð að mati Gísla.

Skemmur þurfa ekki endilega að vera ljótar byggingar. Verið er að byggja þær nokkrar hér á Ísafirði þessa stundina og ég get ekki sagt að þær séu neitt ljótar, þó þær séu kannski ekki nein listaverk. Ég get ekki sagt að Norðurtanginn sé neitt sérstaklega fallegur en Gísli bendir á að hugmyndin sé að nýta húsnæðið til 10 ára eða þar til hægt er að byggja t.d. í tengslum við Gamla Sjúkrahúsið betri aðstöðu undir safnið og notendur þess. Hefðum við t.d. byggt skemmu eða keypt eitthvað húsnæði undir safnið, þá gætum við selt það aftur þegar kæmi að því að byggja betri aðstöðu og ættum þá eitthvað upp í byggingakostnaðinn.

Reiðskemman góða

Það verður vissulega ánægjulegt ef skemma hestamanna getur staðið undir rekstri sínum og enn ánægjulegra ef iðkendum fjölgar hjá hestamönnum. Af sjálfsögðu fagnar HSV því að búið sé að semja við hestamenn, annað væri óeðlilegt. Eitthvað myndi nú ganga á ef félagið sem berst fyrir bættri aðstöðu til íþróttaiðkunar færi að berjast gegn uppbyggingu fyrir eina grein.

Það er gott til þess að vita að bærinn ætli áfram að viðhafa samráð sem komið var í gang við HSV. Enn ánægjulegra verður það ef tekst að skipta út gólfinu í íþróttahúsinu á Torfnesi í ár.

Lykilatriði að leiðrétta rétt

Í máli þínu kemur eftirfarandi fram „Eins og flestir vita þá borgar Ísafjarðarbær venjulega 100% af rekstri íþróttamannvirkja, þarna er því um sérstaklega góð kjör að ræða fyrir bæinn.“ Er þar verið að tala um 49% hlut bæjarins í reiðskemmunni. Sigurður Jón Hreinsson benti okkur á að af 108,5 milljóna veltu skíðasvæðis væri gert ráð fyrir 11,5 milljónum í aðgangseyri. Ég þarf að borga 600 kr í hvert skiptið sem ég fer í sund, og ef ég ætla að fá tíma í einhverju íþróttahúsa bæjarins þá þarf ég einnig að borga fyrir það. Það er því alveg ljóst að Ísafjarðarbær borgar ekki 100% af rekstri íþróttamannvirkja sinna.

Sundlaugin í sundhöllinni eða ekki

Það er vissulega kostnaður sem fylgir því að breyta húsnæði sundhallar til annarra nota en það getur einnig verið hagur í því að koma sundlaug og Íþróttahúsi í sömu byggingu. Hvað gætum við sparað mörg stöðugildi með að hafa sundlaugina og Íþróttahúsið í sömu byggingu? Ég heyrði því fleygt að með sparnaði um 1 stöðugildi mætti réttlæta fjárfestingu upp á um 80 milljónir.

Ódýr bygging þarf ekki að vera ljót. Hvað er að því að byggja ódýrt, við þurfum ekki alltaf að spandera í flott og lúxus. Ég heyrði eitt sinn góða sögu af uppbyggingu verkmenntaskólans á Akureyri. Þar var víst krafa um að einhverju hlutfalli af byggingakostnaði væri eytt í listaverk. Þegar verkið var vel á veg komið þá átti eftir að mála einn stóran vegg innandyra og allur aur uppurinn nema listaverkasjóðurinn. Til að komast hjá listaverka hlutanum og klára verkið á ódýran og góða máta á skólameistari að hafa ráðið listmálara til að mála vegginn góða. Með þessu tókst að klára verkið á réttri fjárhagsáætlun.

Krafturinn í bæjarapparatinu

Krafturinn virðist svo mikill að þrátt fyrir auknar tekjur eru skuldir einnig að hækka. Skuldaviðmið er eftir því sem mér skilst reiknað sem hlutfall af tekjum bæjarsjóðs. Þannig að ástæða hinnar ánægjulegu lækkunar viðmiðsins er ekki lækkun skulda heldur hækkun tekna.

Það er ánægjulegt að menn séu tilbúnir að ræða stóru og erfiðu málin. Enn þar ekki nóg að vera tilbúinn að ræða málin menn verða líka að vera tilbúnir í möguleg skoðanaskipti.

Skólamálin

Það hefur vissuleg mikið verið gert til að standa við markmiðin, enn hvaða framtíðarsýn er það að hlaupa til á síðustu stundu með plástur á sárið í annað skiptið á 3 árum. Gleymum því ekki að plássskortur í leik- og grunnskólum okkar er ánægjulegasta vandamál sem við fáum á borð okkar.

Gott samfélag gulli betra

Góð aðstaða til tómstundaiðkunar spilar vissulega stóran þátt í að byggja upp gott mannlíf. Enn án góðrar leik- og grunnskólaaðstöðu höfum við mjög takmörkuð not fyrir tómstundaraðstöðuna. Helsta ógn góðs samfélags er hækkandi meðalaldur þess sem það byggja.

J. Bæring Pálmason

 

 

DEILA