Óásættanlegt að loka brautinni

Sveitarstjórnir hringinn í kringum landið hafa sameinast um að álykta gegn lokun NA/SV flugbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli, svokallaðarar Neyðarbrautar. Bæjarstjórn Vesturbyggðar hefur bæst í hópinn og í ályktun bæjarstjórnar segir að það hafi sýnt sig að það sé algjörlega óásættanlegt að brautin sé lokuð meðan ekki er boðið upp á aðrar lausnir til að sinna sjúkraflugi við þau tilteknu skilyrði sem brautinni er ætlað sinna. „Bíðum ekki eftir að það eigi sér stað óafturkræft tjón til að gripið verði til aðgerða. Íbúar landsbyggðarinnar þurfa að hafa óskert aðgengi að sjúkrahúsi allra landsmanna í Reykjavík,“ segir í ályktuninni.

Í síðustu viku ályktaði bæjarstjórn Bolungarvíkurkaupstaðar um sama mál. Þar er borgarstjórn Reykjavíkur hvatt til opna neyðarbrautin án tafar. „Lokun neyðarbrautarinnar er ógn við öryggi og heilsu þeirra sem búa og starfa utan höfuðborgarsvæðisins. Flugvöllurinn í Reykjavík er eitt mikilvægasta samgöngumannvirki þjóðarinnar og mikilvægt að Reykjavík sem höfuðborg ræki hlutverk sitt sem slíkt og skyldur við allt landið,“ segir í ályktun bæjarstjórnar Bolungarvíkurkaupstaðar.

smari@bb.is

DEILA