Neyðarbrautin verði opnuð án tafar

Reykjavíkurflugvöllur.

Bæjarstjórn Bolungarvíkurkaupstaðar hvetur borgarstjórn Reykjavíkur til að opna tafarlaust aftur NA/SV flugbraut á Reykjavíkurflugvelli, svokölluð neyðarbraut, meðan ekki hefur fundist önnur viðunandi lausn varðandi sjúkraflug. Þetta kemur fram í bókun sem Guðrún Stella Gissurardóttir lagði fram á síðasta bæjarstjórnarfundi og var samþykkt samhljóða. „Öllum ætti að vera ljóst að  lending á neyðarbrautinni hefur og getur skipt sköpum varðandi sjúkraflug utan af landi, oft í erfiðum tilfellum þar sem um líf eða dauða er að tefla. Lokun neyðarbrautarinnar er ógn við öryggi og heilsu þeirra sem búa og starfa utan höfuðborgarsvæðisins,“ segir í bókuninni.

Reykjavíkurflugvöllur er eitt mikilvægasta samgöngumannvirki þjóðarinnar að mati bæjarstjórnar Bolungarvíkur og í bókuninni er áréttað mikilvægi þess að Reykjavík ræki hlutverk sitt sem höfuðborg og uppfylli skyldur við allt landið.

smari@bb.is

DEILA