Maturinn dýrastur hjá Ísafjarðarbæ – en hækkun minnst

Mynd úr safni úr mötuneyti Grunnskólans á Ísafirði

Verðlagseftirlit ASÍ hefur birt niðurstöður verðlagskönnunnar sinnar þar sem skoðað var gjald sem 15 stærstu sveitarfélög landsins innheimta fyrir hádegisverð og síðdegisvistun grunnskólabarna. Gjald fyrir hádegisverð, 3 tíma síðdegisvistun og hressingu fyrir barn í neðri bekkjum grunnskólans er hæst í Garðabæ kr. 36.484 á mánuði en lægst í Sveitarfélaginu Skagafirði kr. 24.234. Í Ísafjarðarbæ er rukkað 31.603 krónur fyrir þessa þjónustu sem gerir sveitarfélagið það fimmta dýrasta. Þegar litið er til hækkana á milli ára er Ísafjarðarbær með minnstu heildarhækkunina, 1% en mest er hækkunin hjá Reykjavíkurborg eða 11%, þar er þó endanleg tala heldur lægri, kr. 26.100.

Ef eingöngu er skoðuð gjaldskrá fyrir hádegisverð grunnskólabarna má sjá allt að 41% verðmun milli sveitarfélaga. Hæsta verðið er í Ísafjarðarbæ þar sem máltíðin kostar 492 kr. eða 10.332 krónur á mánuði ef gert er ráð fyrir 21. vikum degi í mánuði. Lægsta verðið er hins vegar í Sveitarfélaginu Árborg, 349 kr. máltíðin eða 7.329 krónur á mánuði.

Mjög misjafnt er á milli sveitarfélaga hvernig gjaldskráin fyrir þjónustu við grunnskólabörn er uppbyggð. Til að einfalda samanburð milli sveitarfélagana miðaði verðlagseftirlitið samanburð sinn við 21 virkan dag í mánuði, vistun í þrjá tíma á dag ásamt hressingu í síðdegisvistinni.

Frekar um könnunina má lesa á vef ASÍ

annska@bb.is

DEILA