Margir vilja flytja aftur heim

Jónína Hrönn Símonardóttir.

Í Vísindaporti vikunnar flytur Jónína Hrönn Símonardóttir, kennari og náms- og starfsráðgjafi, erindi sem byggir á meistararitgerð hennar um náms- og starfsferil fólks sem útskrifast hefur úr fámennum skóla á landsbyggðinni. Ritgerðin var unnin upp úr megindlegri rannsókn sem fram fór veturinn 2015.

Megintilgangur rannsóknarinnar var að kanna náms- og starfsferil einstaklinga sem allir eiga það sameiginlegt að hafa útskrifast úr 10. bekk Grunnskólans á Þingeyri á árabilinu 1994-2012. Einnig var viðhorf þeirra til heimabyggðarinnar kannað og ástæður núverandi búsetu.

Niðurstöður sýndu að mikill meirihluti þátttakenda fór í framhaldsskóla að loknum grunnskóla og fóru flestir í skóla í heimabyggð. Flestir sem voru í eða höfðu lokið framhaldsskóla völdu námsbrautir til stúdentsprófs, þrátt fyrir að margir hefðu meiri áhuga á verklegum greinum í grunnskóla. Flestir eru stoltir af því að kallast Dýrfirðingar og finnst þeir fara „heim“ þegar þeir fara þangað. Margir myndu flytja aftur á heimaslóðir ef atvinnutækifæri væru til staðar fyrir þá og maka þeirra.

Jónína Hrönn er Skagfirðingur að uppruna og lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra árið 1989. Hún lauk B. Ed. gráðu í fjarnámi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1996 og var í hópi þeirra fyrstu sem það gerðu á Vestfjörðum. Hún lauk Dipl.Ed. í sérkennslu frá KHÍ árið 2008 ásamt því að ljúka viðbótarnámi í íslensku árið 2010. Hún útskrifaðist með M.A. í náms- og starfsráðgjöf frá Háskóla Íslands haustið 2016. Jónína flutti frá heimahögunum í Skagafirði til Þingeyrar fyrir aldarfjórðungi og hefur starfað sem kennari á öllum skólastigum við Grunnskólann á Þingeyri um langt árabil auk þess að stunda sérkennslu. Hún starfar einnig sem náms- og starfsráðgjafi í grunnskólunum á Þingeyri, Suðureyri og í Önundarfirði.

Vísindaportið stendur að vanda frá 12.10-13.00 og er öllum opið. Erindi þessarar viku fer fram á íslensku.

smari@bb.is

DEILA