Komust áfram í A-riðil

9. flokkur Vestra með Nökkva Harðarsyni þjálfara.

Um helgina fór fram fjölliðamót í B-riðli Íslandsmótsins hjá 9. flokki stúlkna í Bolungarvík. Heimastelpur í Vestra mættu KR-b og Val. Vestrastelpur gerðu sér lítið fyrir og unnu riðilinn og tryggðu sér þar með þátttöku í A-riðli í næstu umferð og fá þá tækifæri til að etja kappi við bestu lið landsins í þessum aldursflokki. Mótið hófst á laugardegi með leik Vestra og KR-b sem lauk með 35-43 sigri Vesturbæinganna. Vestrastúlkur léku strax aftur næsta leik og mættu þá Völsurum. Þær létu tap í fyrsta leik ekki á sig fá og og knúðu fram sigur 49-45 í fjörugum leik.

Á sunnudaginn var leikin önnur umferð og Vestrastúlkur mættu fyrst KR-b. Þær urðu fyrir áfalli snemma í leiknum þegar Katla Sæmundsdóttir, annar af leikstjórnendum liðsins og stigahæsti leikmaður þess fram að þessu, meiddist illa á ökkla og varð að hætta leik en Vestrastúlkur létu það ekki beygja sig og unnu leikinn 52-43.

Fyrir lokaleik mótsins þar sem Valur og Vestri mættust var því allt galopið um úrslit riðilsins. Með sigri gátu Vestra stúlkur tryggt sér sigur í riðlinum og þar með þátttöku í A-riðli í næstu umferð á meðan Valsstúlkur þurftu á sigri að halda til að halda sér uppi í B-riðli. Fljótlega kom þó í ljós að nokkuð var af Valsstúlkum dregið eftir erfiðan leik gegn KR skömmu fyrr. Vestri hafði undirtökin í leiknum sem lauk með 53-47 sigri Vestra og sæti í A-riðli þar með í höfn.

„Þessar efnilegu stelpur sýndu og sönnuðu eina ferðina enn að þær eiga framtíðina fyrir sér í körfubolta og hafa tekið stórstígum framförum í vetur undir handleiðslu Nökkva Harðarsonar þjálfara og Adams Smára Ólafssonar aðstoðarþjálfara. Þess má svo geta að Nökkvi stýrði liðinu á laugardag en þurfti að ferðast á Selfoss til að spila með meistaraflokki á sunnudag. Það kom því í hlut Guðna Ólafs Guðnasonar að stýra stelpunum á seinni daginn sem hann gerði af sinni alkunnu fagmennsku,“ segir á vef Vestra um frammistöðu stúlknanna.

smari@bb.is

DEILA