Þrír keppendur frá Skíðafélagi Ísfirðinga eru nú staddir í Erzurum í Tyrklandi þar sem þeir taka þátt í Vetrarólympíuhátíð Evrópuæskunnar. Það eru þau Anna María Daníelsdóttir, Sigurður Hannesson, og Pétur Tryggvi Pétursson, sem öll keppa í skíðagöngu á ólympíuhátíðinni, auk þeirra er í gönguskíðahópnum Arnar Ólafsson frá Akureyri. Flokkstjóri gönguskíðahópsins er Steven Gromatka þjálfari hjá SFÍ og með hópnum er einnig Gunnar Bjarni Guðmundsson þjálfari.

Íslenski gönguskíðahópurinn sem keppir á Vetrarólympíuhátíð Evrópuæskunnar ásamt þjálfurum sínum

Á sunnudag var glæsileg setningarathöfn sem fram fór á knattspyrnuleikvanginum Kazim Karabekir í Erzurum í 1800 metra hæð yfir sjávarmáli og var frostið ein 17 stig. Setningarathöfnin hófst með því að þátttakendur frá 34 löndum gengu fram völlinn undir þjóðfánum sínum og síðan var ólympíueldurinn tendraður og mun hann loga fram á föstudag er hátíðinni líkur. Hópur 22 Íslendinga er í Erzurum, þar af  gönguskíðakrakkarnir fjórir, ásamt 10 keppendum í öðrum greinum, þjálfurum og öðru starfsfólki.

Fyrsti keppnisdagur var í gær er Anna María Daníelsdóttir reið á vaðið og keppti hún í  í 5km göngu með hefðbundinni aðferð, þar sem hún var 38. í mark  og þá Sigurður og Pétur Tryggvi í 7,5 km göngu, þar sem Sigurður varð í 36 sæti og Pétur Tryggvi í 51sta. Í dag keppir Anna María svo í 7km göngu og Sigurður og Pétur Tryggvi í 10km. Á morgun keppa þau svo í sprettgöngu.

Frá setningu leikanna

annska@bb.is

DEILA