Ísafjörður vinnusóknarsvæði nágrannabæjanna

Ný rannsóknaskýrsla sýnir skýrt að Ísafjörður er vinnusóknarsvæði fyrir bæjarkjarnana í kring, utan Þingeyrar. Litlu bæjarkjarnarnir teljast ekki vinnusóknarsvæði Ísafjarðar, en það er þá helst til Bolungarvíkur sem Ísfirðingar sækja vinnu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í rannsóknum á ferðamynstri og vinnusóknarsvæðum sem Lilja G. Karlsdóttir, samgönguverkfræðingur hjá Viaplan, hefur unnið fyrir hluta landsins, í samstarfi við innanríkisráðuneytið, Skipulagsstofnun og Byggðastofnun með styrk frá Rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar.

Í niðurstöðum Lilju um ferðamynstur og vinnusóknarsvæði á norðanverðum Vestfjörðum kemur einnig kemur fram að hinir ýmsu vegakaflar hræða fólk, Súðavíkurhlíð er þar fremst í flokki, þá Gemlufallsheiði og Flateyrarvegur og getur það haft áhrif á vinnusóknarsvæði. Þá vildu margir að Vestfjarðagöng yrðu tvöfölduð.

Þar sem niðurstöður rannsóknanna sýna að fólk kýs að vinna nálægt heimabyggð og þá má velta fyrir sér hvort framtíðarstefnan eigi að vera sú að reyna að stækka atvinnusvæði og fá fólk til að ferðast meira eða hvort framtíðarstefnan eigi frekar að vera sú að reyna að styrkja fleiri byggðarsvæði. „Á Norðurlöndunum er notast við skattaafslátt á akstri fólks til vinnu, þegar það þarf að ferðast meira en 20 km til vinnu. Það er gert til þess að reyna að styðja við dreifðari byggðir […] hér sé slíkur skattaafsláttur ekki til staðar og því ljóst að það er dýrt fyrir fólk að keyra langar vegalengdir til vinnu hérlendis,“ segir í niðurstöðum skýrslunnar um Vestfirði.

Hér má lesa skýrsluna

smari@bb.is

DEILA