Hagstætt tíðarfar og hlýtt í veðri

Tíðarfar í janúar var lengst af hagstætt og samgöngur greiðar. Fremur hlýtt var í veðri og með snjóléttara móti á láglendi. Úrkoma var ekki fjarri meðallagi. Minna var um illviðri en venjulegt er á þessum tíma árs. Þetta kemur fram í yfirliti Veðurstofunnar um tíðarfar í janúar.  Meðalhiti í Bolungarvík  mældist 0,2 stig og er það 1,4 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en 0,2 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára.  Á Akureyri var meðalhitinn 0,2 stig, 2,4 stigum ofan meðallags 1961 til 1990 og 0,6 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhiti í Reykjavík mældist 1,4 stig og er það 2,0 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en 0,4 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 0,8 stig og 1,8 stig á Höfn í Hornafirði.

Að tiltölu var hlýjast inn til landsins á Norðaustur- og Austurlandi og sums staðar suðvestanlands, 1,0 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára við Upptyppinga. Kaldast að tiltölu var norðan til á Vestfjörðum. Vék hiti á Hornbjargsvita þar mest frá meðallagi síðustu tíu ára og var -0,9 stigum neðan þess.

smari@bb.is

DEILA