Framtíð Act alone í hættu

Frá Act alone síðasta sumar er Elfar Logi Hannesson og Þröstur Leó Gunnarsson kynntu einleik sinn um einbúann Gísla á Uppsölum

Ef ekki kemur til aukins fjármagns til einleikjahátíðarinnar Act alone getur svo farið að hátíðin leggist af. Þetta kemur fram í bréfi Elfars Loga Hannessonar sem dregið hefur vagn hátíðarinnar sem tekið var fyrir á fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar í vikunni. Þar segir Elfar Logi reksturinn í járnum og allt benda til þess að dagar hátíðarinnar séu taldir. Hátíðin var haldin í þrettánda sinn síðasta sumar og segir Elfar Logi að þó hátíðin sé kominn á táningsaldur hafi fjármögnun hennar gengið erfiðlega. Segir hann jafnframt sárast að Menningarmálaráðuneytið hafi einungis styrkt hátíðina einu sinni, en það hafi á sama tíma styrkt aðrar listahátíðir á höfuðborgarsvæðinu og segir Elfar Logi vandamálið í raun risavaxið þar sem staða atvinnulistar á landsbyggðinni sé mjög bágborinn og njóti ekki skilnings innan ráðuneytisins og spyr hann hvort þetta sú byggðastefna sem við viljum viðhafa? Að hafa listalausa landsbyggð? Stjórnendur Act alone hafa óskað eftir fundi með Menningarmálaráðherra, en ekki borist svar við beiðninni.

Í bréfinu segir nú svo komið að Act alone verði ekki haldin nema fjárhagur þessi verði tryggður. Aðstandendur hafa rætt þann möguleika að færa hátíðina annað, fáist þar fjármagn, en segja jafnframt að þeir trúi að hátíðin skipti máli, ekki bara fyrir Vestfirði heldur og listalíf allt. Líkt og þeir vita sem sótt hafa hátíðina hefur mikill metnaður verið lagður í hana og hefur hún sett sterkan svip á menningarlíf á Vestfjörðum.

Í bréfinu leitar Act alone til Ísafjarðarbæjar um aukin fjárframlög með það fyrir augum að halda megi hátíðina í sumar líkt og síðustu sumur í sveitarfélaginu, en hún var fyrstu árin haldin á Ísafirði, en síðustu ár hefur hún verið haldin á Suðureyri. Bæjarráð fól bæjarstjóra að ræða við forsvarsmenn Act Alone um endurnýjun samnings vegna hátíðarinnar, en síðustu tvö ár hefur hátíðin hlotið 500.000.- króna styrk hvort ár.

annska@bb.is

DEILA