Ekki verið tekin afstaða til áfrýjunar

Friðaðað húsið við Aðalstræti 16 í Bolungarvík varð landsfrægt sumarið 2014.

Bolungarvíkurkaupstaður hefur ekki tekið afstöðu hvort dómi Héraðsdóms Vestfjarða yfir Valdimar Lúðvík Gíslasyni verði áfrýjað. Valdimar Lúðvík var dæmdur þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir stórfelld eignarspjöll á friðuðu húsi í Bolungarvík í júlí 2014. Húsið er í eigu Bolungarvíkurkaupstaðar. „Ég geri ráð fyrir að dómurinn verði lagður fyrir bæjarráð eða bæjarstjórn og ákvörðun tekin um næstu skref,“ segir Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík.

Bolungarvíkurkaupstaður gerði skaðabótakröfu upp á 5,5 milljónir króna en Héraðsdómur vísaði meirihluta kröfunnar frá dómi, eða 4,5 milljónum kr. Var það gert vegna þess að sá hluti kröfunnar studdist við greinargerð byggingarfulltrúa Bolungarvíkurkaupstaðar um kostnað við endurbætur á skemmdunum sem húsið varð fyrir. Dómurinn taldi  greinargerðina ekki fullnægjandi gagn og taldi kröfuna því vera vanreifaða. Dómurinn féllst hins vegar á bótakröfu Bolungarvíkurkaupstaðar upp á eina milljón kr. en þar lagði bótakrefjandi fram reikninga vegna bráðabirgðaviðgerðar á húsinu. Jón Páll segir að hann hafi ekki átt kost á að ræða við lögfræðing bæjarins um þetta atriði dómsins.

smari@bb.is

DEILA