Alejandra geislaði á Bessastöðum

Alejandra á Bessastöðum ásamt forseta Íslands Guðna Th. Jóhannessyni

Isabel Alejandra Díaz er Ísfirðingum og öðrum landsmönnum að góðu kunn. Á síðasta ári var hún fjallkona Ísfirðinga, ásamt því sem hún útskrifaðist sem stúdent úr MÍ, þar sem hún hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í íslensku, ensku og erlendum tungumálum. Alejandra segir að nýr kafli í lífi hennar hafi þarna hafist, kafli sem hún sér ekki fyrir endann á og segist hún ekki eiga orð til að lýsa því hversu ævintýralegt lífið hafi verið og segist hún óendanlega þakklát öllu því góða fólki sem stutt hefur við bakið á henni og fjölskyldu hennar allar götur frá því er þau fluttust á Ísafjörð frá El Salvador er hún var einungis fjögurra ára gömul.

Ævintýrum Alejöndru er hvergi nærri lokið og í síðustu viku var henni, ásamt sendiherra El Salvador á Norðurlöndum Anitu Cristinu Escher boðið í heimsókn á Bessastaði þar sem forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson tók á móti þeim. Sendiherrann kom í síðustu viku til Íslands til að sinna embættisverkum og hafði Alejandra ráðgert að hitta hana í Reykjavík, en kynni höfðu tekist með þeim eftir að sendiherrann sendi henni fána El Salvador að gjöf og óskaði henni heilla í fyrrasumar. Klukkustund áður en Alejandra fór í flugið hafði Anita samband við hana og bað hana að hafa íslenska þjóðbúninginn sinn með í ferðina. Þrátt fyrir nauman tíma fór hún suður á leið með upphlutinn fallega í farteskinu, upphlut sem hún sjálf saumaði í þjóðbúningaáfanga í menntaskólanum síðasta vetur. Þegar til Reykjavíkur var komið bauð Anita henni að koma með sér til að sinna nokkrum embættisverkum, þar á meðal á Bessastöðum. Næstu daga var Alejandra í hinum ýmsu heimsóknum með sendiherranum og bar þar hæst heimsóknin á Bessastaði:

„Þetta var algjörlega dásamlegt! Ég bjóst aldrei við að þetta gæti gerst í lífi mínu og ég í raun enn að átta mig á að þetta hafi í alvörunni gerst. Ég veit hreinlega ekki hvort þetta geti orðið eitthvað betra því þetta var svo svakaleg upplifun og vona ég innilega að allir fái að upplifa þetta.“ Segir Alejandra er hún minnist heimsóknarinnar. „Við vorum sóttar á hótelið á fánaskreyttum forsetabílnum og á Bessastaði var virkilega gott að koma. Allt starfsfólkið þar var svo blítt og skemmtilegt og andrúmsloftið gott. Síðan var alveg frábært að hitta Guðna. Ég hafði hitt hann áður þegar hann kom til Ísafjarðar í sumar og fannst þá virkilega gott að hlusta á hann, enda sagnfræðingur og alveg frábær ræðumaður. Hann er auðvitað sami maðurinn og hann var þá, þó hann sé orðinn forseti, en ég er virkilega stolt af honum sem forseta okkar. Ég held að við getum öll verið stolt af honum, sérstaklega í ljósi viðbragða hans við því sem er að gerast í heiminum og hann er góð fyrirmynd fyrir aðra forseta.

Mín afrek eru ykkar afrek líka

Alejandra hefur búið stærstan hluta lífsins á Ísafirði og lítur hún eðlilega á sig sem Ísfirðing, en rætur hennar liggja í El Salvador: „Ég upplifði í heimsókninni á Bessastaði mikla viðurkenningu frá báðum löndunum mínum. Ég er eiginlega orðlaus yfir þessu öllu saman.“ Segir hún, en þrátt fyrir að hafa búið hér á landi stærstan hluta ævinnar gekk ekki þrautalaust fyrir hana að fá íslenskan ríkisborgararétt sem loksins fór í gegn árið 2014. Alejandra segist hafa lagt sérstaklega hart að sér í ljósi þessa: „Ég setti mér alltaf há markmið í náminu. Ég vildi sýna að ég hefði lagt mitt af mörkunum, þegar ég var enn að vinna í því að fá ríkisborgararéttinn. Það er mikilvægt fyrir okkur innflytjendur að sýna hvað í okkur býr og við systkinin lærðum af foreldrum okkar að við ættum að standa okkur vel í vinnu og námi og vera heiðarleg. Þegar allt gekk svona vel í fyrra, þá gat ég sagt við foreldra mína „mín afrek eru ykkar afrek líka“ og það á í raun við alla þá fjölmörgu sem hafa hjálpað mér á lífsleiðinni, því ég hef fengið mikinn stuðning og hvatningu frá fólkinu hér á Ísafirði.“

Alejandra segir mikilvægt að fólk uppfræði sjálft sig um málefni innflytjenda og til að mynda læri að þekkja orðin innflytjandi, flóttamaður og hælisleitandi og hvað er fólgið í hverju. Hún segist sjálf ekki hafa upplifað fordóma á eigin skinni, en hún segist sjá þá í kringum sig, til dæmis á samfélagsmiðlum og segist hún alltaf reyna að benda fólki á verði hún vör við fordóma: „Það er mjög mikilvægt að segja eitthvað. Fólk getur hreinlega haldið að það sé í lagi að segja og gera hluti sem eru í raun siðferðislega rangir ef enginn þorir að segja neitt, eða gefa þeim jafnvel „læk“ fyrir. Það er hægt að koma í veg fyrir alls konar mistök með fræðslu og fólk getur alveg rétt sig af ef það fær leiðsögn þegar það fer út af sporinu. Bara eins og að ávarpa fólk ekki á ensku, það er best að ávarpa bara alla á íslensku til að koma í veg fyrir að vera að ávarpa íslendinga á öðru máli.

Mig langar líka að benda á að í málefnum flóttafólks að það óskar sér enginn að að þurfa að flýja landið sitt vegna stríðs. Það er ekki eins og þetta sé eitthvað val fólks!“

Alejandra vinnur nú í Sjúkraþjálfun Vestfjarða. Hún segist ekki hafa verið alveg tilbúin að rjúka suður síðasta haust í Háskólanám, þó hugurinn stefni á það. „Það er svo margt sem þarf að gera og ég var bara ekki tilbúin að fara.“ En hún fer suður í Háskólann í haust og ætlar að leggja stund á spænsku og síðan hefur hún hug á að bæta við sig bæði sagnfræði og íslensku. Hún segist hafa saknað þess að læra og er tilbúin að hella sér út í námið. Hún segir þó að það verði skrýtið að fara frá Ísafirði: Ég er samt tilbúin núna og ég veit að ég á eftir að koma mikið heim samt. Ég á ekki nógu sterk orð til að lýsa þakklæti mínu til bæjarbúa hér, sem eru verulega góðhjartað fólk sem hefur aldrei látið mig finna neitt annað en ég sé Íslendingur – og ég er verulega mikill Íslendingur. Ég þakka líka Guði hvern dag og hugsa bara hvernig allt þetta gat hent litlu mig frá El Salvador.“

Alejandra og sendiherra El Salvador á Norðurlöndum Anita Cristina Escher með forseta Íslands Guðna Th. Jóhannessyni
Alejandra í einstakri febrúarblíðunni á Ísafirði í morgun

annska@bb.is

DEILA