Afmæli Sundlaugar Bolungarvíkur fagnað

Síðasta laugardag var haldið upp á afmæli Sundlaugar Bolungarvíkur með pompi og prakt. Sundlaugin, sem starfsfólk hennar kallar iðulega í dag musteri vatns og vellíðunar, var vígð 30. janúar árið 1977. Gunnar Hallsson forstöðumaður vék að hinni nýju nafngift í ræðu sinni á afmælinu þar sem hann sagði meðal annars: „Musteri er æðra rými, það getur verið hverskonar bygging raunveruleg eða huglæg. Líkami mannsins  getur þess vegna verið musteri hans sjálf, sem hann umgengst með þeim hætti sem hann virðir líf sitt. Öll viljum við freista þess að ganga vel um það musteri.“

Á þriðja hundrað manns fagnaði afmælinu í íþróttamiðstöðinni Árbæ. Þar var að morgni dags boðið upp á samflot og heilsufarsmælingu sem fulltrúar frá Heilsubænum Bolungarvík buðu gestum og gangandi, þar sem mátti fá upplýsingar um eigin blóðþrýsting, blóðsykur og fituprósentu. Þá öttu kappi um sextíu sundhetjur sunddeildar UMFB. Að því loknu færðist afmælisgleðin um set í íþróttasalinn sem er að finna í sömu byggingu, þar sem fram fóru ræðuhöld og tónlistaratriði, jafnframt því sem boðið var upp á dýrindis kræsingar líkt og tíðkast í öllum betri afmælum. Þá var þetta góða tækifæri notað til að útnefna íþróttamann ársins 2016 í Bolungarvík sem er Nikulás Jónsson.

Hið fertuga afmælisbarn ber aldurinn vel og hefur undanfarinn áratug aðsókn í laugina aukist stórum, enda hafa reglulega verið gerðar þar endurbætur og stöðugt bætist í flóru þess sem sundlaugagestir nútímans óska eftir að slíkir staðir hafi upp á að bjóða, líkt og gott útisvæði þar sem finna má heita potta og vaðlaug og til að bæta um betur er þar einnig að finna rennibraut og kaldan pott sem gestir nýta sér óspart.

Þeir eru ófáir sem hafa heimsótt afmælisbarnið í gegnum tíðina og margir eru reglulegir gestir í lauginni og hefur sundlaugin frá árinu 1977 þjónustað um eina milljón baðgesta.

annska@bb.is

DEILA