Áfengis sjaldnar neytt á Íslandi

Niðurstöður evrópskrar heilsufarsrannsóknar sýna að áfengis er sjaldnar neytt á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Óhófleg drykkja er hins vegar nokkuð tíðari hér en annars staðar. Ísland er með sjöunda lægsta hlutfallið sem drekkur að minnsta kosti einu sinni í viku eða oftar, eða rétt rúmlega 20%. Hlutfallið er hæst í Bretlandi, 52,5%. Af Norðurlöndunum er Danmörk með hæsta hlutfallið, rúmlega 51%, sem er þriðja hæsta hlutfallið af þeim löndum sem tóku þátt í rannsókninni. Ef eingöngu er horft til þeirra sem drekka áfengi daglega er hlutfallið á Íslandi 0,6%, sem þýðir að Ísland er ásamt Litháen með næstlægsta hlutfallið. Hlutfallið mælist hæst í Portúgal, rúmlega 24%.

Á Íslandi er hlutfall fólks sem drekkur einu sinni í mánuði eða oftar (en þó ekki vikulega) það annað hæsta, eða rúmlega 39%. Hæst er það í Noregi, rúmlega 49%. Þá er hlutfall fólks á Íslandi sem drekkur sjaldnar en einu sinni í mánuði nokkuð hátt, tæplega 22%, sem er sjöunda hæsta hlutfallið í rannsókninni.

Hlutfall óhóflegrar drykkju var það fjórða lægsta á Íslandi, rúmlega 42%, en óhófleg drykkja er skilgreind sem neysla 60 gramma af hreinum vínanda í einni setu sem jafngildir 3 stórum bjórum eða 5 vínglösum. Með tíðni er átt við hversu oft á síðustu 12 mánuðum neysla áfengis samsvarar óhóflegri drykkju. Ísland er með annað hæsta hlutfallið sem neytir þetta mikils magns af áfengi sjaldnar en einu sinni í mánuði (tæplega 32%) og fjórða hæsta hlutfallið sem drekkur slíkt magn nokkrum sinnum í mánuði (en þó ekki í hverri viku), eða tæp 24%. Aftur á móti er Ísland með áttunda lægsta hlutfallið sem drekkur slíkt magn í hverri viku, rétt rúm 2% sem er vel undir meðaltali Evrópusambandsins sem er rúm 5%.

Evrópska heilsufarsrannsóknin er samræmd evrópsk rannsókn á heilsufari og heilsutengdri hegðun sem er framkvæmd af hagstofum á Evrópska efnahagssvæðinu. Íslenski hluti rannsóknarinnar var framkvæmdur haustið 2015. Í úrtaki voru 5.700 einstaklingar valdir af handahófi úr þjóðskrá. Af þeim svaraði 4.001 einstaklingur sem þýðir að svarhlutfallið var 70,2%.

Um þetta var fjallað á vef Hagstofu Íslands þar sem nálgast má frekari upplýsingar um rannsóknina.

annska@bb.is

DEILA