100 skemmtiferðaskip í sumar

Skemmtiferðaskip á legunni í Skutulsfirði.

Hvorki meira né minna en eitt hundrað skemmtiferðaskip hafa staðfest komu sína til Ísafjarðar og nágrannahafna í Ísafjarðarbæ næsta sumar. „Hundraðasta skipið bókaði sig í gær en það var Sea Spirit sem kemur í september,“ segir Guðmundur M. Kristjánsson, hafnarstjóri Ísafjarðarbæjar. Fjölgun skemmtiferðaskipa hefur verið ævintýraleg á síðustu árum. Fyrir áratug komu 24 skip til hafna Ísafjarðarbæjar og þeim hefur fjölgað ár frá ári síðan. Í fyrrasumar voru skipakomurnar 82 og er þeim því að fjölga um 22% milli ára.

Guðmundur segir ekki miklar líkur á skipakomum í ár fjölgi frekar. „Venjulega eru ekki breytingar á listanum þegar komið er fram á þennan tíma.“

Hann segir komur skemmtiferðaskipa kærkomnar fyrir hafnarsjóð. „Sérstaklega í tekjuleysinu núna. Það hefur ekki komið mikið í kassann síðan sjómannaverkfallið hófst,“ segir Guðmundur.

smari@bb.is

DEILA