Gistinætur á hótelum í desember voru 287.400 sem er 56% aukning ef tekið er mið af desember 2015. Gistinætur erlendra gesta voru 90% af heildarfjölda gistinátta í mánuðinum en þeim fjölgaði um 59% frá sama tíma í fyrra á meðan gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 10%. Þetta kemur fram í frétt Hagstofu Íslands.
Í talnaefni Hagstofunnar eru gistinætur á Vesturlandi og Vestfjörðum taldar saman og þeim fjölgaði um 91% milli ára, þ.e. þegar desember 2015 er borin saman við desember 2016. Á tólf mánaða tímabili frá janúar 2015 til desember 2016 fjölgaði gistinóttum á svæðinu um 38% samanborið við sama tímabil árin áður.
Flestar gistinætur á hótelum í desember voru á höfuðborgarsvæðinu eða 213.000 sem er 44% aukning miðað við desember 2015. Um 74% allra gistinátta voru á höfuðborgarsvæðinu. Næstflestar voru gistinætur á Suðurlandi eða um 37.800. Erlendir gestir með flestar gistinætur í desember voru Bretar með 89.700 gistinætur, Bandaríkjamenn með 65.900 og Þjóðverjar með 15.800, en íslenskar gistinætur í desember voru 28.200,“ segir meðal annars í fréttinni.
Herbergjanýting í desember 2016 var 63,6% sem er aukning um 16,8 prósentustig, þegar hún var 46,8 prósent. Nýtingin var best á höfuðborgarsvæðinu eða um 84,5 prósent.
Meðalnýting hótelherbergja árið 2016 var 71,3% sem er aukning um 7,4 prósentustig frá árinu 2015, þegar meðalnýting var 63,9%.
smari@bb.is