Undirrita yfirlýsingu um ábyrga ferðaþjónustu

48 þúsund erlendir ferðamenn fóru á Látrabjarg skv. könnun Ferðamálastofu.

Á morgun 10.janúar klukkan 14:30 verður í Háskólanum í Reykjavík undirrituð af forsvarsfólki yfir 100 ferðaþjónustufyrirtækja yfirlýsing um ábyrga ferðaþjónustu. Það er Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð og Íslenski ferðaklasinn, í samstarfi við félög og stofnanir ferðaþjónustunnar, sem standa fyrir undirrituninni og bjóða þau íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum að sammælast um aðgerðir sem leiða til ábyrgar ferðaþjónustu hér á landi. Verndari verkefnisins er forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson.

Ábyrg ferðaþjónusta er hvatningarverkefni og er tilgangur verkefnisins er að stuðla að því að Ísland verði ákjósanlegur áfangastaður ferðamanna um ókomna tíð sem styður við sjálfbærni fyrir komandi kynslóðir þjóðarinnar. Með ábyrgri ferðaþjónustu er átt við að fyrirtækin axli ábyrgð á þeim afleiðingum sem rekstur þeirra hefur á umhverfið og samfélagið.

Festa, í samstarfi við Íslenska ferðaklasann, mun í framhaldinu á árinu 2017 bjóða þátttakendum uppá fræðslu og stuðning í formi hugmyndafunda, málstofa og vinnustofa þar sem sérfræðingar kynna fyrir fyrirtækjum hagnýtar leiðir að ábyrgri ferðaþjónustu. En ferðaþjónustan á Íslandi er mikilvæg atvinnugrein sem getur stuðlað að langtíma velferð og góðum orðstír þjóðarinnar er segir í lýsingu á verkefninu. Þar segir jafnframt að í ferðaþjónustunni séu margar áskoranir sem snúa að samfélagsábyrgð fyrirtækja. Þar megi telja aukinn ágang á náttúruna, að réttindi starfsfólks séu virt, að nærsamfélögin sem ferðamenn heimsækja fái sanngjarnan skerf af ávinningnum og ekki síst að öryggi ferðamanna sé tryggt og þeim veitt góð þjónusta.

Með undirritun gangast ferðaþjónar við því að stuðla að ábyrgri ferðaþjónustu með því að: Ganga vel um og virða náttúruna, tryggja öryggi gesta sinna og koma fram við þá af háttvísi, virða réttindi starfsfólks og hafa jákvæð áhrif á nærsamfélagið.

Sett verða upp markmið um ofangreinda þætti og þeir mældir og reglulega birtar upplýsingar um árangur fyrirtækisins. Þátttaka í yfirlýsingunni er þátttakendum að kostnaðarlausu en gert er ráð fyrir að henni fylgi raunverulegar aðgerðir fyrirtækjanna og áhrif þessa sameiginlega átaks geti því orðið umtalsverð.

annska@bb.is

DEILA