Umsóknin inn fyrir miðnætti

Nú fer hver að verða síðastur í að sækja um í Uppbyggingarsjóð Vestfjarða þetta árið en umsóknarfrestur til að sækja um verkefnastyrki til menningarmála, styrki til atvinnu- og nýsköpunarverkefna, og stofn- og rekstrarstyrki til menningarstofnana rennur út á miðnætti. Á árinu 2017 verður litið sérstaklega til verkefna sem uppfylla eitt eða fleiri eftirfarandi skilyrða: Verkefni sem efla nýsköpun og atvinnuþróun á svæðinu, verkefni sem stuðla að vöru- og gæðaþróun í starfandi fyrirtækjum, verkefni sem mynda atvinnutækifæri og auka fagmennsku á sviði lista og menningar, verkefni sem efla samstarf, ýmist á milli svæða, listgreina, fyrirtækja eða rannsóknaraðila, verkefni sem styðja við uppbyggingu og eflingu menningartengdrar ferðaþjónustu, verkefni sem skapa störf fyrir háskólamenntaðar konur og ungt fólk á svæðinu, atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefni sem eru gjaldeyrisskapandi og atvinnuþróunarverkefni sem eru á sviði líftækni.

Hægt er að sækja um styrki til allt að þriggja ára. Framkvæmda- og fjárhagsáætlun þarf að miðast við þann tímaramma í umsóknum, þegar sótt er um tveggja eða þriggja ára styrk.

Uppbyggingarsjóður er hluti af Sóknaráætlunar Vestfjarða og í umsjón Fjórðungssambands Vestfirðinga. Hann veitir styrki til menningar, atvinnuþróunar og nýsköpunar. Uppbyggingarsjóður varð til með samningi ríkis og Fjórðungssambands Vestfirðinga um Sóknaráætlun Vestfjarða 2015-2019 sem undirritaður var 10. febrúar 2015.

Sérstök níu manna úthlutunarnefnd Uppbyggingarsjóðs sér um að fara yfir umsóknir og úthluta styrkjum, á grundvelli Sóknaráætlunar Vestfjarða, áherslna og úthlutunarreglna, auk gæða umsókna og verkefna. Árið 2017 verður væntanlega úthlutað um 65 milljónum úr sjóðnum.

Hér má sækja um í sjóðinn.

annska@bb.is

DEILA