Stormur og ófærð víða

Nokkurrar ófærðar gætir á Vestfjörðum í morgunsárið og sums staðar mjög hvasst í fjórðungnum, með ofankomu víða. Hálsarnir í A-Barðastrandarsýslu eru ófærir og Kleifaheiðin sömuleiðis. Þæfingsfærð er á Mikladal og Hálfdáni. Hálka og snjóþekja er á vegum á norðanverðum Vestfjörðum en stórhríð á Gemlufallsheiði. Ófært er á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum og mokstur ekki hafinn.

Nú er 970 mb lægð á austurleið skammt suður af landinu og veldur hún norðaustan hvassviðri eða stormi um mestallt land. Það dregur smám saman úr vindi og ofankomu seinnipartinn, einungis kaldi eða strekkingur í kvöld og él fyrir norðan og austan.

Á morgun nálgast fleiri lægðir landið, í athugasemdum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands segir að þeim gangi illa að koma sér saman um hver eigi að ráða veðrinu. Það má segja að myndist millibilsástand sem þýðir það að vindur verður lengst af hægur á morgun, en snjómugga gerir vart við sig í flestum landshlutum.

Á miðvikudag og fimmtudag er útlit fyrir að deilan leysist, lægð fyrir austan land tekur völdin og möguleiki er á að berist til okkar mjög kalt loft beint norðan úr Íshafinu. Þá gætu tveggja stafa frosttölur látið sjá sig á mælum, en slíkt hefur verið sjaldgæft í vetur. Eins og svo oft í norðanáttinni, þá snjóar á norðanvert landið, en bjart syðra.

Nýjasta langtímaspá kom í hús nú á sjöunda tímanum og samkvæmt henni er útlit fyrir að kuldakastinu sé lokið á sunnudaginn því þá verði komin sunnanátt og hlýni á landinu.

annska@bb.is

DEILA