Söngkeppni framhaldsskólanna lifi

Benedikt Sigurðsson

 

Sem sérlegur áhugamaður um góða og sterka menningu sló það mig að lesa það í fjölmiðlum að söngkeppni framhaldsskólanna verði ekki haldin í ár. Mér finnst það miður. Áratuga hefð fyrir þessari frábæru keppni má ekki lognast útaf.

Ástæða þess að keppnin verður ekki haldin í ár er peningalegs eðlis og hefur ekki staðið undir sér. Getum við ekki sniðið stakk eftir vexti og reynt hvað við getum til þess að viðhalda þessari hefð?

Í nýlegum rannsóknum kemur það fram að vanlíðan meðal ungmenna sé að aukast. Kvíði, þunglyndi, félagsfælni og skortur á samskiptahæfni. Síma og tölvunotkun hefur æ færst í aukana og sífellt fleiri ungmenni falla í þá gryfju að vera háð þessum sýndarheimi sem að vissu leyti samskipti í gegnum tölvu eru. Það hafa allir það svo gott í tölvuheiminum er virðist, en er það svo? Líf fólks út á við gefur ekki alltaf rétta mynd af hinu raunverulega. Þetta verða ungmenni að skilja. Það hafa það ekki allir svona gott og æðislegt nema þú. Í grunninn erum við eins og öll höfum við okkar vandamál. Ekki halda það að þið séuð verri en aðrir. Okkur skortir meira af raunverulegum samskiptum. Raunverulegri samveru.

Söngkeppni framhaldsskólanna hefur alla tíð snúist um heilbrigða samveru ungmenna og verið mjög jákvætt fyrir skóla landsins. Það er mín skoðun.

Á hverju ári fylgist maður með sínu fólki og stendur og fellur með því. Auðvitað eru atriðin misjöfn. Lífið er misjafnt. Þarna eru ungmenni mörg hver að stíga sín fyrstu skref og hjá einhverjum er þetta stökkpallur inní atvinnumennsku í tónlist.

Í grunninn snýst þetta ekki aðallega um hver vinnur. Þetta snýst um heilbrigða samveru unglinganna okkar. Þau eru framtíðin og okkur ber að kenna þeim á lífið. Raunverulega lífið.

Ef einhver les þetta sem hefur komið að skipulagningu söngkeppni framhaldsskólanna sl ár eða ráðamenn þjóðarinnar, þá hvet ég ykkur eindregið til þess að setjast niður og finna þessari frábæru keppni farveg. Strax.

Ég veit að fólk almennt hlýtur að vera sammála þessu. Kæmi mér ekki á óvart að meira að segja meistari Överby styðji mig í þessu máli.

Söngkeppni framhaldsskólanna lifi!

Benni Sig

 

DEILA