Nóg er um að vera hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða á vorönn og til að mynda hefst þar á bæ um helgina námskeið í útvarpsþáttagerð „Útvarp sem skapandi miðill – þættir af mannabyggð og snortinni náttúru.“ Þar verða þátttakendum kynnt allt það helsta sem þarf að vita til að vinna megi útvarpsþátt og í lok námskeiðsins hver og einn búinn að skila af sér um 30 mínútna löngum útvarpsþætti. Dansnámskeið í samstarfi við Fjölmennt verður einnig um helgina og í komandi viku hefjast námskeið í frönsku og íslensku fyrir útlendinga.
19. janúar hefst svo smáskipanám Fræðslumiðstöðvarinnar að nýju, en það kemur í stað þess sem áður var nefnt 30rl réttindanám eða pungapróf og miðast atvinnuskírteinin nú við lengd skipa í stað brúttórúmlestatölu áður. Réttindin sem þátttakendur hljóta miðast við skip 12 metrar og styttri að skráningarlengd og eftir að hafa lokið 12 mánaða siglingatíma og þessu námi sem telur 115 kennslustundir. Kennari er Guðbjörn Páll Sölvason og er námið kennt með faglegri ábyrgð Skipstjórnarskóla Tækniskólans.