Truflunum í almennum radíókerfum hefur fjölgað mjög hér á landi en slíkar truflanir geta haft alvarlegar afleiðingar, jafnvel gert hluta farneta ónothæf og haft áhrif á stóran hóp notenda. Ef um útbreidda truflun er að ræða getur hún haft áhrif á tugi eða hundruð notenda. Póst- og fjarskiptastofnun vaktar slíkar truflanir og grípur til aðgerða þegar þörf er á.
Á vef Póst- og fjarskiptastofnunar kemur fram að fjöldi truflana hefur verið það mikill á undanförnum árum að þrátt fyrir að mannafli og tækjabúnaður í truflanavakt PFS hafi verið aukinn umtalsvert getur stofnunin ekki sinnt viðbrögðum við radíótruflunum að fullu og neyðist til að forgangsraða tilkynningum vegna truflana með tilliti til mikilvægis þeirra kerfa sem fyrir truflun verða. Öryggiskerfi, s.s. vegna flugs, eru t.d. alltaf í forgangi.
Skortur á mannafla og tækjum kemur fyrst og fremst niður á landsbyggðinni. Á vef stofnunarinnar kemur fram að lagfæring á truflun í fjarskiptakerfum úti á landi getur þurft að bíða talsverðan tíma ef hún telst ekki í forgangsflokki.
Það þarf varla að fjölyrða um að radíókerfi eru undirstaða samskipta í nútíma samfélagi og nútímamaðurinn tekur því sem sjálfsögðum hlut að kerfin virki. Þau eru ekki eingöngu notuð í samskiptum milli manna heldur ekki síður í ýmsum samskiptakerfum sem stjórna búnaði, s.s. við flugumsjón, vöktun, boðun (t.d. í heilbrigðisþjónustu og í náttúruvá) og í framleiðslufyrirtækjum. Truflanir í slíku umhverfi geta valdið hættuástandi eða fjártjóni. Það getur því valdið verulegum óþægindum og jafnvel hættu ef ekki er brugðist við truflunum í tæka tíð.
smari@bb.is