Segir hækkanir OV þynna út orkujöfnun

Pétur G. Markan.

Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, segir gjaldskrárhækkanir Orkubús Vestfjarða sem tóku gildi 1. janúar síðast liðinn vinna gegn niðurgreiðslu ríkisins vegna húshitunarkostnaðar.
„Auðvitað er það sárt þegar að niðurgreiðsla vegna húshitunarkostnaðar hækkar þurfi OV að hækka sína gjaldskrá á móti, sem er auðvitað ekkert annað en bein aðgerð til að taka hluta af ívilnun sem á að skila sér til íbúa svæðisins til sín. Á götumálinu myndi þetta heita að taka vont „cut“ af greiðslu ríkisins til íbúa svæðisns.“

Gjaldskrá fyrir dreifingu raforku hækkuðu um 7% og fyrir sölu um 4%. Í tilkynningu frá Orkubúinu segir að áhrif hækkunarinnar á heildarorkukostnað heimila verði minnst hjá heimilum í þéttbýli sem nota fjarvarma til upphitunar, eða 2,1%, en hækkun hjá þeim sem nota rafmagn til upphitunar verður 4,5% í þéttbýli en 5% í dreifbýli.

Pétur segir Orkubúið mismuna fólki með gjaldskránni: „Þessi hækkun minnir líka á að íbúar Súðavíkur, sem svo sannanlega búa í þéttbýli, borga dreifbýlisgjald fyrir sína húshitun, sem hækkar um 5% á meðan aðrir íbúar í þéttbýli þurfa að taka á sig 4,5% hækkun. Hvers vegna OV sér ástæðu til að mismuna fólki svona er sjálfsagt verkefni fyrir fleiri fagmenn en bara viðskipta – og verkfræðinga til að útskýra.“

Hann segist vona að Orkubú Vestfjarða taki þessi mál til endurskoðunar á árinu: „Þetta er algjörlega óskiljanlegt og skömm af fyrir OV. Ég er viss um að OV eigi eftir að endurskoða þessa afstöðu þegar líður á árið 2017. Nýtt ár er tækifæri til að vinda ofan af allskonar vitleysu. Hef fulla trú á stjórnendum OV til að gera það.“

brynja@bb.is

DEILA