Segir bæinn verðlauna óbilgirni og ósanngirni hestamanna

Daníel Jakobsson, oddviti Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, gagnrýnir harðlega samkomulag Í-listans við Hestamannafélagið Hendingu. Hann segir að með samkomulaginu sé meirihlutinn að „verðlauna óbilgirni og ósanngirni forystumanna félagsins sem hafa staðið í vegi fyrir því að Ísafjarðarbær hafi getað samið við Vegagerðina um bætur fyrir völlinn.“

Á fundi bæjarráðs í morgun voru samþykktir viðaukar við fjárhagsáætlun vegna samkomulagsins sem lækka handbært fé bæjarins um 23 milljónir kr. á þessu ári. Samkomulagið er til komið vegna aðstöðumissis félagsins á Búðartúni í Hnífsdal en þar hafði Hending gert keppnisvelli sem fóru undir framkvæmdasvæði Bolungarvíkurganga.

Daníel lét bóka á fundinum að í desember hafi forsvarsmenn Hendingar neitað að skrifa undir þríhliða samkomulag við bæinn og Vegagerðina sem hefði tryggt bænum og þar með hestamannafélaginu 20 milljóna kr. greiðslu nema umræddur samningur yrði samþykktur jafnframt.

Daníel segir að Hendingarmenn hafi gert það sama árið 2014 þegar Ísafjarðarbær gerði félaginu skriflegt tilboð um að byggja í Engidal sambærilegan völl og var í Hnífsdal en því tilboði var aldrei svarað að sögn Daníels

„Með því að neita því að að greiða götu bæjarins í uppgjöri við Vegagerðina hafa þeir kostað bæinn umtalsvert fjármagn og sýnt óbilgirni sem hefði getað skaðað Ísafjarðarbæ, Hendingu og samfélagið hér. Að semja á þeim nótum sem nú liggur fyrir við forystumenn félagsins er óásættanlegt fyrir íbúa bæjarins og þau íþróttafélög sem fara eftir sameiginlegum reglum HSV og bæjarins.“

Samkvæmt samkomulaginu á að reisa reiðskemmu í Engidal sem verður í eigu Hendingar og Ísafjarðarbæjar. Í bókun Daníels er bent á að eftir sem áður eigi eftir að byggja alla útiaðstöðu félagsins og hann telur að kostnaður bæjarins hlaupi á milljónatugum króna.

„Í dag eru um 10-15 manns sem halda hesta á svæðinu og starfsemi hefur verið afar lítil s.l. ár. Því er ekki aðstöðuleysi einu um að kenna. Það að forgangsraða fjármagni í umrædda framkvæmd á sama tíma og er ekki hægt að fjármagna mörg önnur verkefni er óskynsamleg ráðstöfun skattfjár sem ég get ekki stutt.“

smari@bb.is

DEILA