Ruðst inn á heimili

Í helstu verkefnum Lögreglunnar á Vestfjörðum í liðinni viku kemur fram að tvívegis í síðustu viku hafi ölvaðir menn ruðst í leyfisleysi inn á heimili fólks. Fyrra atvikið átti sér stað á Ísafirði aðfaranótt 20. janúar síðastliðins. Þá ruddist ölvaður maður inn á heimili nágranna síns. Maðurinn var handtekinn og færður í fangageymslu. Honum var sleppt lausum næsta dag eftir að hafa sofið úr sér vímuna. Maðurinn er grunaður um eignaspjöll. Aðfaranótt sunnudags ruddist maður í heimildarleysi inn á heimili fólks á Patreksfirði. Maðurinn var ölvaður og æstur. Hann var færður í fangaklefa og þar látinn sofa úr sér vímuna.

Ökumaður var snemma á sunnudagsmorgun stöðvaður í Hnífsdal og er hann grunaður um að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna. Tveir ökumenn voru kærðir, í vikunni, fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Annar þeirra var stöðvaður í Hestfirði en hinn við Hólmavík. Báðir voru þeir að aka á öðru hundraðinu, þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90. km.

Tilkynnt var um eitt umferðaróhapp. Það var á Hnífsdalsvegi um kl.04:30 aðfaranótt 22. janúar sl. Ökumaður fólksbifreiðar missti stjórn á bifreiðinni sem rann út af veginum og hafnaði á ljósastaur. Auk ökumanns voru tveir farþegar í bifreiðinni. Farþegarnir voru fluttir á sjúkrahúsið á Ísafirði til aðhlynningar en þeir reyndust með minni háttar áverka. Bifreiðin var óökufær eftir áreksturinn.

annska@bb.is

DEILA